Benedikt XVI páfi verður „páfi emeritus“ og mun halda heiðursnafnbótinni „hans heilagleiki“ þrátt fyrir að láta af störfum á fimmtudaginn, segja yfirvöld í Vatíkaninu. Þetta kemur fram í frétt BBC. Titillinn „emeritus“ er Íslendingum kunnur, en hann er einna helst notaður af prófessorum sem látið hafa af störfum. Páfinn mun að auki halda páfatitlunum Benedikt XVI, en verður ekki aftur Josef Ratzinger. Klæðaburður hans verður jafnframt í svipuðum stíl og páfa, en þó ekki eins.
Benedikt XVI mun til dæmis þurfa að segja skilið við embættishring sinn, og páfainnsigli hans verður eyðilagt, rétt eins og ef um andlát páfa væri að ræða. Að sögn Federicos Lombardi, talsmanns Vatíkansins, mun páfinn ekki fá að halda sérgerðum rauðum leðurskóm, heldur mun hann héðan af ganga í brúnum skóm, sem sérsaumaðir voru á hann af mexíkóskum skósmið þegar páfinn heimsótti Mexíkó á síðasta ári.
Páfinn mun verja sínum síðustu stundum á heimili sínu í Vatíkaninu, þar sem hann mun kveðja þá kardínála sem hafa verið hans nánustu samstarfsmenn þau átta ár sem hann hefur gegnt páfadómi.
Samkvæmt Catholic News Service mun páfinn búa í þessu húsi eftir að hann lætur af störfum. Hins vegar er ekki er vitað hvort hann muni taka sér önnur störf fyrir hendur eftir að hann verður aftur skeikull.