Innan við eins prósentustiga munur er fylgi bandalags vinstri- miðflokka og á bandalagi hægri- miðflokka á Ítalíu eftir þingkosningarnar í gær. Niðurstaða kosninganna virðist vera pattstaða. Búist er við að markaðir eigi eftir að taka þessum úrslitum illa.
Ekki er búið að ljúka endanlegri talningu atkvæða, en eins og staðan er núna í neðri deild þingsins hefur bandalag vinstri- og miðflokka undir forystu Pier Luigi Bersani, fengið 29,54% atkvæða. Bandalag hægri- og miðflokka undir forystu Silvio Berlusconi er með 29,18% atkvæða. Stjórnmálahreyfing sem gamanleikarinn Beppe Grillo stofnaði er með 25,55% atkvæða og miðflokkur Mario Monti forsætisráðherra er með 10,56%.
Í öldungadeildinni hefur hvorugur stóru flokkanna náð að tryggja sér meirihluta atkvæða. Til að tryggja sér meirihluta í deildinni þarf 158 sæti. Flokkur Bersani er með 113 sæti en flokkur Berlusconi er með 116 sæti.
Þetta þýðir að enginn flokkur er með meirihluta atkvæða og alls óvíst hvort hægt verður að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Beppe Grillo, sem verður að teljast helsti sigurvegari kosninganna, hefur lýst yfir að hann ætli ekki að mynda meirihluta með hvorugum stóru flokkanna.
Talsmaður Berlusconi hefur sagt að bíða verði með yfirlýsingar þar til búið sé að telja öll atkvæði. Bersani segir að úrslit kosninganna skapi mjög viðkvæma stöðu fyrir Ítalíu.
Breyting var gerð á kosningareglum á Ítalíu fyrir nokkrum árum sem tryggir þeim sem sigrar í stærstu héruðum landsins nokkur sæti aukalega í öldungadeildinni. Flest bendir til að Berlusconi muni vinna sigur í þremur af fjórum stærstu héruðum landsins, þ.e. í Lombardy, Campania og Sikiley.
Mario Monti tók við sem forsætisráðherra Ítalíu fyrir 15 mánuðum síðan af Berlusconi. Þegar hann tók við var mikil ólga innan evrusvæðisins og skuldatryggingarálag Ítalíu hafði hækkað mikið. Búist er við að markaði í Evrópu taki úrslitum kosninganna á Ítalíu illa. Almennt er talið að mikil þörf sé fyrir sterka ríkisstjórn á Ítalíu sem hafi umboð til að gera nauðsynlegar breytingar. Niðurstaða kosninganna er hins vegar pattstaða. Enginn virðist hafa fengið skýrt umboð til að stjórna.