Dæmd til hýðingar eftir nauðgun

Maldíveyjar eru paradís ferðamannsins en hið gagnstæða þegar kemur að …
Maldíveyjar eru paradís ferðamannsins en hið gagnstæða þegar kemur að réttindum kvenna. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

15 ára maldíveysk stúlka, sem var nauðgað af stjúpföður sínum, hefur verið dæmd til hýðingar fyrir að stunda kynlíf fyrir hjónaband. Stúlkan var ákærð í fyrra eftir að fram komu ásakanir um að hún hafi orðið þunguð eftir nauðgun af hálfu stjúpföður hennar, sem myrti svo nýfætt barnið. 

Lögregla hóf rannsókn málsins eftir að barnslík fannst grafið á eyjunni Feydhoo í norðurhluta eyríkisins. Stjúpfaðir hennar er sakaður um að hafa nauðgað henni og er ákærður fyrir að myrða barnið. Móðir hennar hefur sömuleiðis verið ákærð fyrir að tilkynna málið ekki til yfirvalda. Réttarhöldin yfir þeim eru ekki hafin.

Stúlkan hefur hins vegar verið dæmd til 100 svipuhögga og til 8 mánaða stofufangelsis á fósturheimili fyrir börn undir lögaldri. Hýðingin mun fara fram þegar hún hefur náð 18 ára aldri, nema hún óski eftir fullnustu refsingarinnar fyrr.

Krefjast þess að hýðingar verði afnumdar

Mannréttindasamtökin Amnesty International fordæma dóminn harðlega sem ómannúðlegt grimmdarverk. BBC segir að talsmaður unglingadómstólsins, Zaima Nasheed, verji dóminn með þeim rökum að stúlkan hafi sjálfviljug brotið lögin. Ríkisstjórn Maldíveyja hefur lýst því yfir að hún sé ósammála dómnum og lögin verði tekin til endurskoðunar.

Þetta er þó hvergi nærri fyrsti dómurinn af þessu tagi sem fellur á Maldíveyjum. Fyrir tæpu hálfu ári var 16 ára stúlka t.d. dæmd til sömu refsingar, 100 svipuhögga og 8 mánaða stofufangelsis, fyrir að stunda kynlíf með sér eldri manni.

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Navi Pillay, hvatti stjórnvöld á Maldíveyjum eindregið til þess í fyrra að leggja af opinberar hýðingar á konum sem stunda kynlíf utan hjónabands.

„Við undrum okkur á því að ríkisstjórnin geri ekkert til að stöðva þessar refsingar, til að afnema þær alfarið úr lagabókstafnum,“ segir talsmaður Amnesty International, Ahmed Faiz, í samtali við BBC.

„Þetta er ekki einstakt dæmi, þetta gerist endurtekið. Síðast í janúar var stúlka sem varð fyrir kynferðisofbeldi dæmd til hýðingar.“ Faiz segist ekki vitað hvenær slík hýðing fór síðast fram því enginn vilji tjá sig um það opinberlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert