Forseti Úkraínu, Viktor Janúkóvítsj, sagði á blaðamannafundi í dag að hann kynni að náða náinn bandamann Júlíu Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, en hún situr í fangelsi vegna spillingar.
Síðan Janúkóvítsj komst til valda fyrir þremur árum hafa ýmsir fyrrverandi forystumenn í stjórn Tímósjenkó verið dæmdir í fangelsi og þar á meðal Júrí Lútsjenkó sem var innanríkisráðherra hennar. Hann var handtekinn fyrir utan heimili sitt árið 2010.
Janúkóvítsj sagðist ætla að sjá til hvernig áfrýjunarmál Lútsjenkós vegna dómsins sem hann hlaut fyrir fjársvik færi áður en hann tæki ákvörðun um það hvort hann náðaði hann. Ef dómstólar myndu ekki sýkna Lútsjenkó myndi hann taka málið til skoðunar. Hins vegar gaf forsetinn ekkert út um það hvort til greina kæmi að náða Tímósjenkó.