Fálkanum skotið á loft

Geimflauginni Falcon-9, eða Fálkinn-9, var í gærmorgun skotið á loft frá Canaveral-höfða á Flórída í Bandaríkjunum en henni er ætlað að flytja 677 kíló af varningi til geimfaranna sem staddir eru í alþjóðlegu geimstöðinni.

Geimflaugin tengdist geimstöðinni í morgun en hún verður staðsett þar næstu tvær vikurnar. Þá heldur hún aftur til jarðarinnar og flytur með sér upplýsingar sem fengnar hafa verið í gegnum vísindarannsóknir í stöðinni.

Það er einkafyrirtækið SpaceX sem stóð að geimskotinu en þetta er í annað sinn sem varningi er komið til alþjóðlegu geimstöðvarinnar með aðkomu einkaaðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert