Sýndu myndskeið af konum að grillast

Gilberto Valle er kallaður mannætulöggan. Ekki er þó sannað að …
Gilberto Valle er kallaður mannætulöggan. Ekki er þó sannað að hann hafi étið mann.

Kviðdómurum í máli mannætulöggunnar svokölluðu í New York voru í dag sýnd myndskeið af konum að grillast yfir opnum eldi sem tekin voru af vefsíðu sem helguð er pyntingum og áti á konum. Fleiri myndskeið og ljósmyndir voru sýndar við réttarhöldin í dag.

Saksóknarinn segir að þessar myndir sanni að mannætulöggan svokallaða, lögreglumaður í New York, hafi verið flæktur í samsæri um mannát, að því er fram kemur í frétt AP-fréttastofunnar.

Lögreglumaðurinn Gilberto Valle heimsótti þessar óhugnanlegu vefsíður. Réttarmeinafræðingur FBI, Stephen Flatly, hefur rannsakað myndirnar og sagði: „Sumar kvennanna eru dánar, sumar þeirra virðast hafa verið kyrktar.“

 AP-fréttastofan segir í frétt sinni að kviðdómurum hafi mörgum brugðið við að sjá myndirnar og heyra útskýringar Flatly á þeim.

Á einni vefsíðunni sem Valle heimsótti er viðskiptavinum lofað hágæða mannakjöti.

Þá fengu kviðdómarar að heyra það að meðal leitarstrengja sem Valle sló inn í tölvu sína var: „Hvernig á að kyrkja konu“. Þá leitaði hann einnig eftir orðunum „uppskrift með mannakjöti“.

Verjendur halda því fram að Valle hafi aðeins verið að láta sig dreyma, hann hefði aldrei raunverulega ætlað að drepa og éta konu. Engri konu hafi í raun stafað ógn af honum.

Á einu myndskeiðanna sem sýnt var við réttarhöldin mátti sjá nakta konu hanga yfir opnum eldi og öskra í örvæntingu. Á ljósmyndum mátti sjá konur sem búið var að troða epli upp í.

Mun fleiri myndir átti að sýna við réttarhöldin, m.a. af myndum af líkamshlutum. Dómarinn ákvað hins vegar að myndirnar skyldu ekki sýndar þar sem þær fundust á svokölluðum „flakkara“, þ.e. lausum hörðum diski á heimili Valles. Dómarinn sagði því ekki hægt að sanna að Valle hefði skoðað þær myndir.

Valle er 28 ára og hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því að hann var handtekinn síðasta haust.

Valle er sakaður um að hafa lagt á ráðin um að ræna og myrða konu og einnig fyrir að hafa misnotað gagnabanka lögreglunnar.

Réttarhöldin hafa staðið í rúma viku. Á morgun munu verjendur Valles hefja sínar vitnaleiðslur.

Frétt mbl.is: Barnaníðingar í slagtogi við mannætulöggu

Frétt mbl.is: Ætluðu að horfa á blóðið spýtast

Frá dómshúsinu í New York þar sem réttarhöldin yfir Valle …
Frá dómshúsinu í New York þar sem réttarhöldin yfir Valle fara fram. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert