Gríðarlegur hríðarbylur gengur nú yfir norðurhluta Bandaríkjanna. Rúmlega 1.100 flugvélar komast ekki leiðar sinnar, hundruð skóla eru lokaðir og vegir eru víða ófærir. Stormurinn hefur haft áhrif í fleiri en tólf ríkjum, allt frá Minnisota til Virginíu. Í ríkinu Minnisota er 60 sentímetra jafnfallinn snjór.
Mikið á að snjóa í Chicago í kvöld en samkvæmt veðurstofu landsins mega íbúar borgarinnar eiga von á allt 2,5 sentímetrum af jafnföllum snjó á hverjum klukkutíma. Hundruð snjóruðningsvéla vinna nú að því að ryðja götur borgarinnar en ekki er víst að þeim takist að halda í við snjómagnið.
„Spáð er umtalsverðu magni af snjó og mun það gera ferðalög hættuleg,“ segir í aðvörun veðurstofunnar. „Ferðist aðeins í neyðartilvikum“.
Búist er við að stormurinn nái til New York seint í kvöld eða snemma á morgun. Nokkrum fundum þjóðþingsins hefur þegar verið frestað í Washington.