Sextíu ár eru í dag liðin frá dauða Jósefs Stalíns. Hann var einvaldur í Sovétríkjunum í um 30 ár og bar ábyrgð á dauða milljóna manna. Þrátt fyrir þetta sýna skoðanakannanir í Rússlandi að um 50% íbúa líta Stalín jákvæðum augum.
Stjórnarfar í tíð Stalíns einkenndist af ótta. Þessi ótti einkenndi viðbrögð samstarfsmanna hans þegar hann veiktist og dó.
Kvöldið 28. febrúar 1953 byrjaði eins og venjulega hjá Stalín og nánustu samstarfsmönnum hans, Lavrentí Bería, Níkíta Khrústsjov, Nikolaj Búlganín og Georgí Malenkov. Þeir horfðu á kvikmynd í Kreml og héldu síðan í hús Stalíns nálægt Moskvu þar sem haldin var drykkjuveisla.
Um nóttina fóru gestirnir heim til sín. Stalín er sagður hafa skipað vörðum sínum að ganga til hvílu og þeir máttu ekki trufla hann.
Ýmsar kenningar hafa komið fram um dauða Stalíns. Almennt er talið að hann hafi látist af völdum heilablæðingar en þeir eru til sem telja að hann hafi verið myrtur.
Verðirnir sváfu fram eftir og þegar þeir vöknuðu héldu þeir að Stalín vildi sofa út. Þeir biðu í margar klukkustundir og ekkert bólaði á Stalín. Þeir voru orðnir áhyggjufullir en enginn þeirra þorði að fara inn í herbergi Stalíns. Þangað máttu þeir ekki fara nema hann bæði þá um það sjálfur.
Klukkan 6.30 kviknaði ljós í herbergi Stalíns og verðirnir róuðust. En þegar klukkan var orðin tíu voru þeir orðnir stjarfir af hræðslu. Að lokum var Pjotr Lozgatsjev, einn af lífvörðum Stalíns, sendur til að athuga hvort eitthvað amaði að Stalín. Þá kom í ljós að hann lá alvarlega veikur í rúminu.
Stalín komst aldrei til fullrar meðvitundar og lést 5. mars 1953.
Boris Brasovsky rifjaði upp í samtali við BBC viðbrögð íbúa Sovétríkjanna þegar Stalín dó. Mörg hundruð þúsundir manna lögðu á sig að ganga fram hjá líki einræðisherrans. Hann segist sjálfur hafa beðið í biðröð í 15 klukkutíma til að sjá Stalín á líkbörunum. Mikill troðningur hefði verið í biðröðinni og hann hefði um tíma óttast um líf sitt. Nokkrir hefðu troðist til bana í atganginum.
„Mér leið eins og minn eigin faðir hefði látist. Við vorum heilaþvegin í skóla,“ segir Brasovsky. „Nú skammast ég mín fyrir að hafa farið til að sjá lík Stalíns. Maður sem myrti svo marga á ekki skilið að vera minnst.“
Margt ungt fólk í Rússlandi í dag kýs að líta framhjá ódæðisverkum Stalíns. BBC ræddi við stúdenta sem bentu á að Stalín hefði verið sterkur leiðtogi og vegna hans hefðu Sovétríkin verið sterk.
Fyrir þremur árum lét Mikheil Saakashvili, forseti Georgíu, taka niður styttu af Stalín í Gori, fæðingarborg Stalíns. Nú hefur verið ákveðið að setja styttuna upp aftur. Safn í Gori sem helgað er minningu Stalíns dregur að sér fjölda ferðamanna á hverju ári. Safnið hefur sáralítið breyst frá því það var opnað árið 1957.