Martin O'Malley, ríkisstjóri Maryland, kom á dögunum gegn um öldungaráð frumvarpi sínu um afnám dauðarefsingar í ríkinu. Samþykki fulltrúaráðið það einnig verður Maryland 18. ríki Bandaríkjanna þar sem bann er lagt við dauðarefsingu.
Raunar hefur enginn verið líflátinn vegna glæpa sinna í Maryland síðan árið 2005 en dauðarefsing hefur verið heimil frá árinu 1638, en þá var Maryland enn bresk nýlenda.
Í dag eru fimm fangar sem dæmdir hafa verið til dauða og þykir afar ólíklegt að þeirri refsingu verði haldið til streitu.
Sá maður sem barist hefur hvað ötullegast gegn dauðarefsingum í ríkinu er Kirk Bloodsworth, en árið 1984 var hann dæmdur til dauða fyrir að nauðga og myrða níu ára stúlku. Áratug síðar var hann sýknaður og látinn laus á grundvelli lífsýna sem voru talin sanna sakleysi hans.
Hann segir baráttuna helgast af þeim tíma sem hann var í fangelsi og því að deila klefa með mönnum sem áttu yfir höfði sér að vera líflátnir.