Vilja ekki sporna við ofbeldi gegn konum

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York
Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York mbl.is/Una

Íran, Vatíkanið og önnur ríki sem byggja á trú spyrna fótum við viðleitni Sameinuðu þjóðanna til að fastmóta harðari afstöðu gegn ofbeldi gegn konum og börnum.

Árleg ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna hófst á mánudag í höfuðstöðvunum í New York og er með stærstu viðburðum sem þar eru haldnir, en þar mætast oftar en ekki stálin stinn.

Málflutningur á ráðstefnunni í ár er sagður bera merki þeirrar miklu athygli sem málefni kvenna hafa fengið undanfarið í kjölfar skelfilegra frétta af ofbeldi gegn konum, s.s. skotárásinni sem Malala Yousafzai, 15 ára skólastúlka í Pakistan, varð fyrir vegna baráttu fyrir jafnrétti til náms, og hópnauðgunum í Indlandi.

Trú og hefðir ekki afsökun fyrir kynbundnu ofbeldi

Embættismenn frá Vatíkaninu, Íran og Rússlandi eru hins vegar að sögn Afp í forystusveit þeirra sem vilja taka út orðalag í ályktun í yfirlýsingu fundarins þar sem segir að ekki megi nota trú, siðvenjur og hefðir sem afsökun fyrir því að komast hjá skuldbindingum ríkja til að útrýma ofbeldi.

Fulltrúar þessara ríkja eru líka á móti því að talað verði um nauðgun kvenna af hálfu eiginmanns eða sambýlismanns.

„Ofbeldi gegn konum verður að skoðast sem mannréttindamál og það hefur ekkert með menningu eða trú að gera,“ segir jafnréttisráðherra Noregs, Inga Marte Thorkildsen, í samtali við blaðamann Afp á ráðstefnunni. 

Thorkildsen áætlar að kynbundið ofbeldi kosti norskt samfélag um milljarð Bandaríkjadala á hverju ári en það þurfi að setja peninga í að veita konum og börnum vernd gegn ofbeldi og tryggja að mál þeirra fái framgöngu í dómkerfinu.

Vilja halda í völd og halda konum niðri

„Vatíkanið og afturhaldssamir trúarhópar í Bandaríkjunum, Evrópu, kaþólskum og múslímalöndum taka saman höndum um að koma í veg fyrir að kynfrelsi kvenna verði tryggt.“ Hún segir að afstaða hinna afturhaldssömu tengist því að ákveðnir hópar vilji halda í völd og vilji ekki sjá konur metnar til jafns við karla. 

„Þegar þeir tala um siðferðileg álitamál verða þeir sem reyna að hindra okkur í að ná niðurstöðu að spyrja sjálfa sig hver er helsti siðferðisvandi okkar tíma - það að svipta milljónir kvenna og barna réttinum til að lifa lífinu.“

„Menningarleg fjölbreytni“

Maryam Mojtahedzadeh, ráðgjafi Mahmouds Ahmadinejads, forseta Írans, í málefnum kvenna, varði afstöðu síns ríkis á ráðstefnunni og sagði að virða yrði „menningarlega fjölbreytni“. Hún sagði að Íran hefði sett lög um öryggi kvenna á síðasta ári og að ráðgjafarstöðvar hefðu verið settar upp á lögreglustöðvum fyrir konur sem yrðu fyrir kynferðisofbeldi.

Alþjóðabankinn áætlar að fleiri konur á aldrinum 15-44 ára láti lífið á heimsvísu vegna ofbeldis en vegna malaríu, HIV, krabbameins, slysa og stríðsátaka samanlagt. Margir kalla eftir því að alþjóðasamfélagið taki skýrari afstöðu gegn ofbeldi gegn konum.

Michelle Bachelet, yfirmaður UN Women og fyrrverandi forseti Chile, segir að það verði að styrkja lagaumhverfið og setja skýrari stefnu og áætlanir til að koma í veg fyrir og bregðast við kynbundnu ofbeldi.

„Það verður að gera ríkisstjórnir ábyrgar fyrir því að standa við skuldbindingar sínar í þessum málum,“ segir Bachelet. 

Afp leitaði eftir viðbrögðum fulltrúa Vatíkansins og Rússlands á þingi Sameinuðu þjóðanna en engin svör fengust.

Norski ráðherrann segir að það sé mögulegt að ná samstöðu um gagnorða yfirlýsingu en býst við mikilli hörku í samningaviðræðum. Ráðstefnan stendur til 15. mars.

Inga Marte Thorkildsen ráðherra barna og jafnréttismála í Noregi.
Inga Marte Thorkildsen ráðherra barna og jafnréttismála í Noregi. www.sv.no
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert