Evrópuþingið mun næstkomandi þriðjudag greiða atkvæði um tillögu sem lagt gæti blátt bann við klámi í öllum miðlum. Verði tillagan samþykkt mun hún hafa gríðarleg áhrif innan landa Evrópusambandsins og á mannréttindi eða öllu heldur borgaraleg réttindi íbúa þeirra.
Í tillögunni er meðal annars talað um að klám sé að verða almennt samþykkt meðal fólks og hefur laumað sér inn í nútímamenningu Evrópulanda.
Christian Engström, sem situr á Evrópuþinginu fyrir Sjóræningjaflokkinn (e. Pirate party) varar við því að tillagan verði samþykkt, hann segir óljóst hvað felist í henni þar sem það er ekki skýrt hvað átt sé við með „bann í öllum miðlum“. Hann segir að túlka megi það sem svo að klámbannið yrði það víðtækt að það næði yfir internetið og allt sem því fylgir.