Skotið á hestamann úr ómannaðri flaug

Ómönnuð flaug Bandaríkjamanna.
Ómönnuð flaug Bandaríkjamanna. AFP

Uppreisnarmaður á hestbaki í fjallahéraði í norðvesturhluta Pakistans lét lífið í morgun eftir að loftskeyti úr ómannaðri bandarískri flaug hæfði hann. Stjórnvöld í Pakistan hafa ítrekað mótmælt árásum sem þessum en Bandaríkin segja þær mikilvægt vopn í stríðinu gegn hryðjuverkum.

Um er að ræða fyrstu árás Bandaríkjamanna með ómannaðri flaug í Pakistan í að minnsta kosti mánuð. Uppreisnarmaðurinn var nærri þorpinu Dehgan í Norður-Waziristan. Svæðinu er stjórnað af uppreisnarmönnum Talibana og al-Qaída samtakanna. 

Raunar greinir Bandaríkjamönnum og Pakistönum á hvort einn eða tveir uppreisnarmenn hafi verið drepnir. Bandaríkjamenn segjast aðeins hafa skotið einu loftskeyti og hæft einn mann, á hestbaki, en Pakistanar segja tveimur loftskeytum hafa verið skotið og tveir hafi fallið.

Í árásum sem þessum er sjaldnast opinberað hverjir létust. Talið er að á milli 2.500 og 3.500 manns hafi fallið í Pakistan í árásum gerðum með ómönnuðum flaugum frá árinu 2004, þar af nærri eitt þúsund almennir borgarar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert