Fyrrverandi liðsforingi í þýska hernum sem tók þátt í tilraun til að myrða Adolf Hitler árið 1944 lést á heimili sínu í Munchen í Þýskalandi. Hann var níræður þegar hann lést.
Ewald-Heinrich von Kleist var 22 ára gamall þegar hann bauðst til að ganga á fund Hitlers í sprengjuvesti. Ekki kom til þess að hann reyndi að myrða nasistaleiðtogann með þeim hætti, en nokkrum mánuðum síðar tók hann þátt í tilraun til að myrða Hitler 20. júlí árið 1944. Claus von Stauffenberg stjórnaði þeirri tilraun.
Von Kleist átti að halda á tösku með sprengjuefni inn á fund með Hitler, en áætlunin breyttist og von Stauffenberg hélt sjálfur á töskunni. Sprengjan sprakk en Hitler lifði árásina af.
Claus von Stauffenberg ásamt föður von Kleist og fleirum voru handteknir og teknir af lífi í kjölfar tilræðisins. Ewald-Heinrich von Kleist var handtekinn og sendur í útrýmingarbúðir, en var síðar leyft að snúa til baka í herinn.
Von Kleist sagði síðar frá því að von Stauffenberg hefði stungið upp á því að hann færi til fundar við Hitler klæddur sprengjuvesti. Hann sagði að faðir sinn hefði samþykkt þessa tillögu. Ekkert hefði hins vegar orðið af þessum fundi.
„Feður elska syni sína og faðir minn gerði það svo sannarlega. Ég var viss um að hann myndi segja nei. Eins og alltaf hafði ég vanmetið hann,“ sagði von Kleist í samtali við BBC.