39 þúsund stúlkur neyddar í hjónaband

AFP

Á hverjum degi eru 39 þúsund stúlkur á barnsaldri neyddar í hjónaband, margar hverjar seldar eins og hver annar nautpeningur til að auka tekjur fjölskyldunnar. Þess eru dæmi að stúlkur séu barðar til dauða, þeim nauðgað eða refsað á annan grimmilegan hátt fyrir að neita að giftast eldri mönnum, körlum sem gætu jafnvel verið afar þeirra. Þriðjungur stúlkna í 42 þjóðríkjum er í hjónabandi áður en átján ára aldri er náð.

Um þetta mál er fjallað í nýjasta tölublaði Heimsljóss, vefrits um þróunarmál.

Rúmlega 140 milljónir stúlkna verða barnabrúðir fyrir árið 2020 ef fram heldur sem horfir, þar af 50 milljónir yngri en fimmtán ára, segir í skýrslu sem Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna lagði fram á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir. Níu þeirra tíu þjóða þar sem barnabrúðkaup eru algengust eru í Afríku, hæst er hlutfallið í Níger þar sem 75% stúlkna hafa gengið í hjónaband áður en átján ára aldri er náð. Önnur lönd þar sem yfir helmingur stúlkna giftist á barnsaldri eru Tjad, Mið-Afríkulýðveldið, Gínea, Mósambík, Malí, Búrkina Fasó, Suður-Súdan og Malaví. Barnahjónabönd eru einnig algeng í Asíu, einkum á Indlandi og í Bangladess.

 Vilja hækka giftingaraldur í Malaví

Í Malaví hafa stjórnvöld lagt til að giftingaraldur verði hækkaður úr 15 árum í 18 ár og gera sér vonir um að lögfestingin nái fram að ganga á næsta ári. Ennfremur er af hálfu stjórnvalda kostað kapps um að halda stúlkum lengur í skóla. Þessar áherslur eru hluti af þeirri viðleitni ríkisstjórnar Joyce Banda að draga úr mæðradauða. Miðað við hver hundrað þúsund lifandi fædd börn í Malaví deyja 675 mæður og það hlutfall er með því hæsta í heiminum. Catherine Gotani Hara, heilbrigðisráðherra Malaví, segir í The Guardian að nýleg heilsurannsókn hafi leitt í ljós að flestar konur sem deyja af barnsförum séu á aldrinum 15 til 19 ára. „Við óttumst að þegar konur giftast ungar leiði það til aukins mæðradauða," er haft eftir ráðherranum sem bætir við að Joyce Banda forseti vilji draga úr þessari háu tíðni því fæðing eigi ekki að vera dauðadómur yfir nokkurri konu.

 Ótal skýrslur hafa sýnt fram á að barnungum stúlkum er mikil hætta búin verði þær barnshafandi fyrir tvítugt eins og tölur um dánartíðni ungra mæðra sýna, en einnig eru andvana fædd börn og börn sem deyja á fyrstu klukkutímunum eftir fæðingu helmingi fleiri þegar mæðurnar eru undir tvítugu.

 Ofbeldi gegn konum umræðuefni fundar kvennanefndar SÞ

Fimmtugasti og sjöundi fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (e. Convention on the Status of Women) stendur yfir í New York. Meginefni fundarins í ár er afnám ofbeldis gegn konum og stúlkum. Í frétt á vef UN Women á Íslandi segir að það sé útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum og óhætt sé að kalla ofbeldi gegn konum og stúlkum heimsfaraldur.  

 Michelle Bachelet, framkvæmdastýra UN Women, ávarpaði allsherjarþingið á opnunardegi fundarins með eftirfarandi orðum: „Ofbeldi gegn konum og stúlkum er enn útbreitt og refsileysi virðist vera venjan. Við verðum að takast á við þau viðamiklu verkefni sem við stöndum frammi fyrir og beita okkur af öllum þunga fyrir því að uppræta þetta mein og að ríki taki ábyrgð á þessum málaflokki,“ segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka