Auðmjúkur páfi tók strætó í vinnuna

Frans á svölum Péturskirkjunnar í Róm.
Frans á svölum Péturskirkjunnar í Róm. VINCENZO PINTO

Kjör Jorge Bergoglio í stöðu páfa markar margvísleg tímamót. Hann er fyrsti páfinn í sögunni sem kemur frá Rómönsku Ameríku. Hann er fyrsti Jesúítinn sem sest á páfastól. Frans er auðmjúkur maður, en hann býr í lítilli íbúð í Buenos Aires og tekur strætó í vinnuna.

Bergoglio er af fátæku fólki kominn. Faðir hans var verkamaður sem átti fimm börn. Bergoglio hefur haldið fast í þessar rætur þó að hann hafi risið til æðstu metorða í kaþólsku kirkjunni í heimalandi sínu. Hann býr í lítilli íbúð, sér sjálfur um að elda matinn og tekur strætó í vinnuna.

Val hans á nafninu Frans er athyglisverð. Hann leitar ekki eftir nafni sem forverar hans á páfastóli hafa borið heldur velur nafn sem enginn páfi hefur valið. Þetta má túlka sem yfirlýsingu af hans hálfu um að hann ætli ekki að leita fyrirmynda í hefðina. Nafnið vísar einnig í Frans af Assisi, en hann lagði einmitt áherslu á auðmýkt. Hann afsalaði sér öllum veraldlegum auð.

Fyrsti Jesúíti á páfastóli

Bergoglio hefur gagnrýnt harkalega Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og kapítalismann. Sergio Rubin, trúarlegur rithöfundur frá Buenos Aires, segist reikna með að Frans eigi eftir að feta í fótspor Jóhannesar Páls II. að því leyti að hann verði íhaldssamur í siðferðilegum efnum en framsækinn í félagslegum málum.

Frans er fyrsti Jesúíti til að setjast á páfastól. Jesúítar leggja mikla áherslu á menntun og starfa margir í skólakerfinu.

Frans er fyrsti páfinn sem kemur frá Rómönsku Ameríku, en rúmlega 40% þeirra sem tilheyra kaþólsku kirkjunni koma frá Rómönsku Ameríku. Hann er fyrsti páfi frá landi utan Evrópu í tæp 1300 ár. Næsti páfi þar á undan, sem kom frá annarri heimsálfu en Evrópu, var Gregóríus III. en hann var frá Sýrlandi.

Frans hefur á síðustu árum leitt kirkjuna í Argentínu og flestir eru sammála um að hann hafi staðið sig afar vel í því leiðtogahlutverki. Þar hafa ekki komið upp stór hneykslismál eins og í sumum öðrum löndum.

Að vera í forystu fyrir kirkjunni í Argentínu á tímum einræðisstjórnarinnar var sannarlega ekki auðvelt verkefni, en Bergoglio þykir hafa komist vel frá því. Bergoglio var á þessum tíma leiðtogi Jesúíta í Argentínu. Skilaboð hans til trúbræðra sinna í Jesúítareglunni voru skýr og einföld: „Haldið ykkur frá stjórnmálum.“

Leynd ríkir um páfakjör, en það hefur þó spurst út að árið 2005 hafi Bergoglio verið einn af þeim sem komu sterklega til álita til að taka við af Jóhannesi Páli II. Það er talið að núna hafi kardínálar frá Rómönsku Ameríku og kardínálar frá Ítalíu kosið Bergoglio. Þar hefur ekki spillt fyrir að hann er af ítölskum ættum og heitir ítölsku nafni.

Frans er fyrsti páfinn sem kemur frá Rómönsku Ameríku.
Frans er fyrsti páfinn sem kemur frá Rómönsku Ameríku. KEVORK DJANSEZIAN
Jorge Mario Bergoglio verður 266. maðurinn til að setjast á …
Jorge Mario Bergoglio verður 266. maðurinn til að setjast á páfastól. KEVORK DJANSEZIAN
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka