„Hún sagði aldrei skýrt nei“

Á þessari mynd sem gekk manna á milli á netinu …
Á þessari mynd sem gekk manna á milli á netinu má sjá piltana tvo bera stúlkuna rænulausa á milli sín.

Rétt­ar­höld hefjast í dag í hópnauðgun­ar­mál­inu sem skekið hef­ur smá­bæ­inn Steu­ben­ville í Ohio. Tveir pilt­ar sem báðir eru í fót­boltaliði bæj­ar­ins eru ákærðir fyr­ir að nýta sér ölv­un­ar­ástand 16 ára stúlku til að koma fram vilja sín­um gegn henni. Verj­andi þeirra seg­ir að aldrei hafi verið gefið til kynna að hún væri and­snú­in kyn­mök­um.

Sam­fé­lags­miðlar hafa komið mjög við sögu í mál­inu, sem hófst 11. ág­úst 2012 þegar krakk­arn­ir, sem all­ir voru 16 ára og und­ir lögaldri, voru að skemmta sér. Stúlk­an varð ofurölvi og fjór­ir pilt­ar þvæld­ust með hana úr einu partýi í annað og að end­ingu var henni nauðgað af tveim­ur þeirra, sam­kvæmt ákæru.

Tíst um at­b­urði kvölds­ins

At­hæfið tóku partý­gest­ir upp á farsíma og rötuðu bæði ljós­mynd­ir og ví­djóupp­tök­ur á netið. Þrem­ur dög­um síðar lagði móðir stúlk­unn­ar fram nauðgun­ar­kæru til lög­reglu og vísaði m.a. skjá­skot­um af Twitter þar sem ung­ling­ar í bæn­um grínuðust með at­b­urði kvölds­ins sín á milli. „Lag kvölds­ins er tví­mæla­laust Rape me með Nir­v­ana“ sagði í einu tísti.

Eft­ir að nauðgun­ar­kær­an var kom­in fram var mikið af mynd­efn­inu tekið út af net­inu aft­ur, en það dugði ekki til því tölvu­hakk­ara­hóp­ur­inn Anonymous hef­ur látið sig málið varða og grafið sumt efnið upp aft­ur, að því er fram kem­ur á CNN.

Ein ljós­mynd frá kvöld­inu hef­ur vakið hvað mesta at­hygli og er hún birt hér að ofan. Á henni má sjá pilt­ana tvo, Trent Mays og Ma'lik Richmond, halda á stelp­unni á milli sín, að því er virðist al­gjör­lega rænu­lausri. 

„Nauðguðu henni hraðar en Mike Ty­son“

Anonymous hóp­ur­inn birti einnig 12 mín­útna langt mynd­skeið þar sem strák­ar í bæn­um gera grín að því að stúlk­an hafi verið áfeng­is­dauð og hlæja sig hása. „Hvað mynd­irðu samt gera ef þetta væri dótt­ir þín?“ heyr­ist einn þeirra segja. „Ef hún væri dótt­ir mín væri mér al­veg sama, ég myndi bara láta hana vera dauða,“ seg­ir þá ann­ar og hlær.

Þá ýja þeir að því að migið hafi verið yfir stelp­una án þess að hún vaknaði. „Þeir nauðguðu henni hraðar en Mike Ty­son nauðgaði stelp­unni þarna,“ seg­ir einn pilt­anna og all­ir springa úr hlátri.

Talið er að minnst þrjú vitni hafi samþykkt að koma fyr­ir dóm­inn og lýsa því að stúlk­unni hafi verið nauðgað margsinn­is þegar hún var varla með meðvit­und.

Ældi yfir sjálfa sig

Þrátt fyr­ir þetta mun málsvörn pilt­anna, sam­kvæmt banda­rísk­um fjöl­miðlum, byggja á því að samþykki stúlk­unn­ar hafi legið fyr­ir, eða í öllu falli að hún hafi ekki gefið nógu skýrt til kynna að hún væri pilt­un­um and­snú­in.

Sak­sókn­ar­inn Mari­anne Hem­meter seg­ir al­veg ljóst af máli vitna að stúlk­an hafi verið of ölvuð til að geta samþykkt kyn­mök. „All­ir sam­mæl­ast um að hún hafi verið æl­andi. Hún ældi yfir sjálfa sig. Það þurfti að hjálpa henni að ganga. Hún gat ekki gengið. Hún skjögraði.“ Sjálf sagði stúlk­an lög­reglu að hún muni ekk­ert hvað gerðist eft­ir að hún yf­ir­gaf vini sína og fór upp í bíl með strák­un­um fjór­um.

Sagði aldrei nei

Sam­kvæmt dag­blaðinu The Plain Deal­er í Ohio bygg­ir Walter Madi­son, verj­andi ann­ars pilt­anna, ein­mitt á þessu upp­hafi kvölds­ins, þ.e. að stúlk­an hafi vilj­andi drukkið sig fulla og eng­inn hafi þvingað hana til fara með strák­un­um fjór­um í önn­ur partý. 

 „Það er nóg af sönn­un­ar­gögn­um fyr­ir því að hún hafi tekið meðvitaðar ákv­arðanir. Hún sagði aldrei skýrt nei.“ Madi­son leiðir að því lík­um að stúlk­an hafi svo séð eft­ir öllu sam­an eft­ir á, vegna þess að hún skammaðist sín þegar for­eldr­ar henn­ar komust að því að hún stundi kyn­líf.

Hann rök­styður mál sitt m.a. með því að stúlk­an hafi ekki viljað koma fram op­in­ber­lega og tjá sig um málið. „Hún er þögul núna al­veg eins og hún var þetta kvöld, og það er vegna þess að samþykkið lá fyr­ir.“

Réttað verður í mál­inu fyr­ir ung­linga­dóm­stól af gest­kom­andi dóm­ara sem hef­ur eng­in tengsl við sam­fé­lagið í Steu­ben­ville. Eng­inn kviðdóm­ur verður skipaður held­ur fer dóm­ar­inn einn með valdið. Verði pilt­arn­ir fundn­ir sek­ir gætu þeir verið send­ir á ung­linga­heim­ili þar til þeir ná 21 árs aldri. 

Frétt mbl.is: Nauðgun­ar­kæra skek­ur smá­bæ

Frétt mbl.is: Réttað í Steu­ben­vil­le­mál­inu í mars

Mótmæli hafa verið boðuð í dag við dómshúsið þar sem …
Mót­mæli hafa verið boðuð í dag við dóms­húsið þar sem réttað er yfir ung­lings­pilt­un­um tveim­ur.
Fótboltaliðið í Steubenville er eitt helsta stolt bæjarbúa og íþróttastrákarnir …
Fót­boltaliðið í Steu­ben­ville er eitt helsta stolt bæj­ar­búa og íþróttastrák­arn­ir gríðarlega vin­sæl­ir.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert