Kýpverjar eru slegnir yfir fregnum af ströngum lánaskilmálum sem kveða á um stórfellda skattálagninu á sparifjáreigendur í landinu. Auk annarra skilmála var kveðið á um að skattar yrðu greiddir af öllu sparnaði í landinu til að koma til móts við neyðarlán sem alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitti landinu sem nú er á heljarþröm skulda og verðbólgu.
Fjármálaráðherrar Evruríkjanna samþykktu í gær að veita Kýpur neyðarlánið, að upphæð 10 milljarða evra, til að koma í veg fyrir að gjaldþrot ríkisins. Samkomulag náðist eftir viðræður sem fram fóru í Brussel á milli ráðherranna og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Auk þess sem kýpverskum stjórnvöldum er gert að greiða skatta af láninu eru þau skilyrði eru sett fyrir lánveitingunni að stjórnvöld í Kýpur grípi til aðgerða til að rétta af fjárlagahallann, draga úr stærð bankakerfisins og hækka skatta.
Forseti Kýpur, Nicos Anastasiades varði lántökuna og sagði hana vera „sársaukafullt skref“ sem nauðsynlegt væri að taka til að forðast gjaldþrot ríkisins. Helsta kosningaloforð Anastasiadesar, sem sigraði forsetakosningar í síðasta mánuði, var að tækla skuldamál landsins af krafti. Hann mun flytja þjóðinni ávarp síðar í dag.
Skattarnir sem þegnum Kýpur er gert að greiða eru á þá vegu að þeir sem eiga sparifé undir 100.000 evrum borgi af því 6,75%. Þeir sem eiga hærri upphæð en 100.000 inni á sparireikningum skulu borga 9.9%. Skattarnir skulu greiddir í einu lagi.
Lánaveitendur hafa legið undir ámæli fyrir að gera ráð fyrir að hættan á aukinni kreppu á evrusvæðinu sé liðin hjá.
Þó svo að Kýpur sé á meðal smæstu efnahagskerfa innan svæðisins, eða það þriðja minnsta, þá gætu alvarlegar afleiðingar hlotist af gjaldþroti þess. Meðal annars myndi það skaða stærri ríki á borð við Spán og Ítalíu sem nú þegar tefla á tæpasta vaði í skuldamálum.
Ræna ævisparnaðinum
Kýpur er fimmta landið sem þiggur fjárhagslega aðstoð frá öðrum evruríkjum. Áður hafa Grikkland, Írland, Portúgal og Spánn þegið hjálp af þeim toga.
Skattaálagningin tekur gildi á þriðjudag, en gripið hefur verið til aðgerða til að koma í veg fyrir millifærslur sem gerðar eru til að komast hjá skattagreiðslunum.
„Þetta er rán og við verðum að þrýsta á að Evrópusambandið komi í veg fyrir þetta,“ sagði Alan, viðmælandi BBC og sparifjáreigandi í Kýpur. „Við förum á eftirlaun og leggjum ævisparnaðinn inn á reikning. Nú virðist svo vera sem þeir geti tekið peningana okkar í leyfisleysi og sagt okkur síðan að við séum hluthafar í gjaldþrota banka,“ bætir hann við.
Tengd frétt: Kýpur fær neyðarlán