Þing Kýpur hefur frestað umræðum sem áttu að fara fram í dag um skilmála fyrir neyðarláni sem Evrópusambandið ætlar að beita Kýpur. Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, segir að samkomulagið sé sársaukafullt fyrir landsmenn en nauðsynlegt ef komast eigi hjá hruni bankakerfisins.
Stjórnarandstaðan í Kýpur hefur mótmælt samkomulaginu harðlega og BBC segir að almenn hneykslan og reiði hafi gripið um sig meðal almennings á Kýpur. Biðraðir mynduðust víða við hraðbanka þar sem fólk reyndi að taka út peninga áður en sparnaðurinn yrði skattlagður.
Þingumræður um neyðarlánið, sem áttu að hefjast í dag, hefjast á morgun, að því er fram kemur í fjölmiðlum á Kýpur. Flokkur forsetans er með 20 sæti á þinginu þar sem sitja 56 þingmenn. Forsetinn þarf því stuðning frá öðrum flokkum til að koma samkomulaginu í gegn um þingið.
Samkomulag milli stjórnvalda á Kýpur og ESB felur m.a. í sér að lagður verður allt að 10% skattur á bankainnistæður. Hæstur verður skatturinn á fjárhæðir sem eru yfir 100.000 evrum.
Mörg Evruríki voru treg til að nota fé skattgreiðenda í Evrópu til að aðstoða erlenda viðskiptavini banka á Kýpur. Rússneskir auðmenn og fleiri útlendingar eiga háar upphæðir í bönkum á Kýpur.
Þá hafa margir áhyggjur af því í Evrópu hvaðan fjármunirnir koma, þ.e. hvort þeirra hafi verið aflað með löglegum hætti. Ennfremur hafa menn áhyggjur af því hvernig Kýpur stendur sig í baráttunni við peningaþvætti.
Skattinum er ætlað að tryggja að þessir fjárfestar leggi sitt af mörkum í björgunarpakkann. Almennir sparifjáreigendur á Kýpur þurfa hins vegar einnig að greiða skatt af sparifé.
Samkomulagið felur í sér að ESB mun veita Kýpur 10 milljarða evra neyðarlán til að koma í veg fyrir að ríkið verði gjaldþrota. Þau skilyrði eru sett fyrir lánveitingunni að stjórnvöld í Kýpur grípi til aðgerða til að rétta af fjárlagahallann, draga úr stærð bankakerfisins og hækka skatta.
Bankar í Kýpur tóku á sig mikinn skell vegna kreppunnar á Grikklandi. Þeir þurftu að afskrifa mikið af lánum vegna taps grískra banka.