Versti efnahagsvandi í 40 ár

Nicos Anastasiades, forseti Kýpur.
Nicos Anastasiades, forseti Kýpur. AFP

Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, segir að Kýpverjar hafi ekki staðið frammi fyrir meiri efnahagsvanda í tæp 40 ár, eða frá því Tyrkir réðust inn í landið árið 1974.

Þetta sagði forsetinn í sjónvarpsávarpi í dag en þar ræddi hann um 10 milljarða evra neyðarlánið sem fjármálaráðherrar evruríkjanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykktu að veita Kýpur.

Kýpversk stjórnvöld hafa ákveðið að leggja 10% einskiptisskatt á allar bankainnistæður í landinu og hefur sú ákvörðun reitt landsmenn til reiði.

Anastasiades hvatti stjórnmálaöfl landsins til að fylkja sér á bak við samkomulagið. Stjórnarflokkarnir eru undir miklu álagi og var neyðarfundi sem halda átti á þinginu í dag frestað til morguns.

Forsetinn segir að Kýpur hafi þurft að velja á milli þess að koma stöðugleika á efnahagslíf landsins ella standa frammi fyrir efnahagshruni, og þá myndi Kýpur ekki lengur vera hluti af evruríkjunum.

Þeir sem eiga minna en 100 þúsund evrur inn á bankareikningum á Kýpur þurfa nú að greiða 6,75% skatt einu sinni. Þeir sem eiga hærri upphæðir þurfa að greiða 9,9% skatt í eitt skipti samkvæmt skilmálum sem er að finna í neyðarláni AGS og ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert