Fjármálaráðherrar evrulandanna samþykktu í dag að það yrði ekki lagður á sértækur innistæðuskattur á sparnað undir 100.000 evrum á Kýpur. Það er í raun algjör U-beygja frá fyrri ákvörðun sem hefur valdið verulegum óróa meðal Kýpverja sem tæmdu flest alla hraðbanka landsins um helgina. Þá var ákveðið að bankar í landinu yrðu lokaðir til fimmtudags vegna ótta við bankaáhlaup.
„Evruríkin styðja að það verði engin skattheimta á lágar innistæður,“ sagði heimildarmaður við AFP-fréttaveituna eftir að yfirlýsing með fáum orðum hafði verið gefin út fyrr í kvöld. Ráðherrarnir hittust í dag til að ræða stöðuna sem upp er komin.