Ræddu málefni Kýpur á fundi í dag

Leiðtogar Frakklands, Þýskalands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hétu því að auka samkeppnishæfni á evrusvæðinu en forðuðust að ræða hið viðkvæma ástand á Kýpur á blaðamannafundi í dag. Frá þessu greinir AFP-fréttastofan.

„Við þurfum að tryggja hagvöxt í Evrópu, að fjármálamarkaðurinn í Evrópu sé traustur, veki von með fólki og skapi störf fyrir fólkið í Evrópu,“ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands á blaðamannafundi í dag.

„Við þurfum sérstaklega að tryggja samkeppnishæfni í Evrópu, ef við gerum það ekki muni aðrir þættir ekki ná fram að ganga,“ sagði Merkel áður en hún átti fund með lykilfólki úr viðskiptalífinu.

Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði að það væri búið að gera nokkuð margt til að ná fram stöðugleika á evrusvæðinu og að það væri nú í forgangi að skapa vöxt á svæðinu sem glímir við töluverðan samdrátt.

„Hagkerfið á evrusvæðinu er nú þegar nokkuð sterkt en við þurfum að vera í betri stöðu til að standast samkeppni á alþjóðavísu. Til þess að geta það þurfum við að samræma okkur betur,“ sagði forsetinn.

Viðurkenndi að kreppan væri hvergi nærri á enda

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jose Manuel Barroso, viðurkenndi að kreppan á svæðinu væri hvergi nærri á enda. „Eins og allir sjá eru hagvaxtarhorfur slæmar, atvinnuleysi meðal ungs fólks mikið og nú nýjustu horfur varðandi Kýpur,“ sagði Barroso.

„Hvað sem því líður, þökk sé okkar fyrri ákvörðunum, er traustið að aukast á ný,“ sagði Barroso.

Hann viðurkenndi að leiðin að bættu heilbrigði í fjármálakerfinu yrði þýfð en lagði áherslu á að Evrópusambandslöndin héldu sig við áður samþykktar skipulagsbreytingar í tengslum við fjárlög.

„Ég er sannfærður um að við þurfum að hafa kjark til að halda fyrri stefnu,“ sagði Barroso.

Leiðtogarnir forðaðist markvisst að ræða vandamálin á Kýpur, þar sem öllum bankaútibúum hefur verið lokað til fimmtudags til að forðast bankaáhlaup vegna sérstaks innistæðuskatts sem komið hefur verið á innistæður í kýpverskum bönkum sem forsenda fyrir neyðarláni sem Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa gert samkomulag um við ríkisstjórn Kýpur.

Heimilir frá manni tengdum Hollande herma að Barroso hafi lagt áherslu á að ræða ekki málefni Kýpur á blaðamannafundinum.

„Þetta var ekki staðurinn til að tjá sig um þau mál,“ sagði heimildamaðurinn við AFP-fréttastofuna.

Angela Merkel, Francois Hollande og Jose Manuel Barroso í Berlín …
Angela Merkel, Francois Hollande og Jose Manuel Barroso í Berlín í dag. AFP
Angela Merkel, Francois Hollande og Jose Manuel Barroso í Berlín …
Angela Merkel, Francois Hollande og Jose Manuel Barroso í Berlín í dag. AFP
Angela Merkel, Francois Hollande og Jose Manuel Barroso í Berlín …
Angela Merkel, Francois Hollande og Jose Manuel Barroso í Berlín í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert