Þjóðþing Kýpur kaus í kvöld um umdeildan skatt sem til stóð að leggja á bankainnstæður samkvæmt skilmálum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir björgunarpakka sem hljóðar upp á 10 milljarða evra. Enginn þingmaður kaus með frumvarpinu, en 36 gegn því og 19 sátu hjá, að sögn BBC.
Fjármálaráðuneyti Kýpur lagði til undanþágu fyrir eigendur smærri innistæðna, undir 20 þúsund evrum, en andstaða við skattinn var eftir sem áður áfram mikil. Þúsundir mótmælanda létu í sér heyra við þinghúsið í dag á meðan deilt var um málið í þingsal.
Flugvél full af peningum frá Bretlandi
Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins hafa varað við því að tveir stærstu bankar Kýpur muni falla verði björgunarpakkinn ekki samþykktur með skilmálum. Stærsti flokkur þingsins fór fram á það að atkvæðagreiðslu um málið yrði frestað en forseti þingsins hafnaði því.
Allir bankar Kýpur eru enn lokaðir og verða fram á fimmtudag þar sem stjórnvöld óttast bankaáhlaup verði þeir opnaðir að svo stöddu. Varnarmálaráðuneyti Bretlands sendi í dag flugvél með 1 milljón evra til eyjunnar svo unnt sé að veita breskum hermönnum og fjölskyldum þeirra þar neyðarlán hætti hraðbankar og greiðslumiðlunarkerfi landsins að virka.
Rússar eru reiðir
Nokkrir þingmenn kölluðu lánapakka ESB og AGS fjárkúgun í umræðum á þinginu í dag. Skilmálarnir vöktu gríðarlega reiði en samkvæmt upphaflegum skilmálum hefðu allir borgarar þurft að greiða 6,75% skatt af sparifé sínu í bönkunum.
Breytingartillaga fjármálaráðuneytisins var sú að innistæður undir 20 þúsund evrum yrðu skattfrjálsar en þeir sem ættu yfir 100.000 evrur í banka þyrftu að greiða 9,9% skatt. Það varðar hins vegar fleiri en Kýpverja því af þem 68 milljörðum evra sem eru á innistæðureikningum þar í landi er talið að um 40% séu í eigu útlendinga, fyrst og fremst Rússa.
Yfirvöld í Rússlandi gagnrýnt skilmála ESB og AGS harðlega, þar á meðal Vladimír Pútín forseti Rússlands sem kallaði lánasamninginn í gær „ósanngjarnan, ófaglegan og hættulegan.“
Forsetinn boðar til neyðarfundar
Nicos Anastasiades forseti Kýpur hvatti alla flokka til að styðja frumvarpið, með þeim orðum að ríkið verði gjaldþrota fáist björgunarpakkinn ekki greiddur út. Forsetinn hefur boðað til neyðarfundar allra flokka á morgun til að ræða næstu skref.
Fjármálaráðherra Hollands, Jeroen Dijsselbloem, fullyrti í gær fyrir hönd fjármálaráðherra evrusvæðisins að ekkert annað evruríki yrði þvingað til að setja á slíka skatta.