Afríska Dúbaí rís í Lagos

Skýjakljúfar og snekkjur verða á hverju strái í nýju hverfi sem stendur til að byggja upp í Lagos, höfuðborg Nígeríu. Gert er ráð fyrir að fyrsta byggingin rísi á næstu tveimur árum en hverfið verði fullklárað í kringum árið 2030. Það hefur þegar verið nefnt hið afríska Dúbaí.

Í nýja hverfinu, Eko Atlantic, verður húsnæði fyrir 250 þúsund manns auk þess sem talið er að 150 þúsund manns eigi eftir að geta fundið sér þar atvinnu. Verkefnið nýtur meðal annars velvilja Bills Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem var gestur á hátíð tileinkaðri Eko Atlantic á dögunum. „Byggjum eitthvað fallegt, eitthvað sem endist, eitthvað sem skapar tækifæri, atvinnu og von,“ sagði Clinton í ræðu sinni.

Eko Atlantic verður með eigin rafstöð og vatnshreinsun til að tryggja orkuöryggi og að hreint vatn verði í boði á hverju heimili.

Verkefnið hefur einnig verið gagnrýnt töluvert. Í Lagos búa 15 milljónir manns og þurfa margir að sætta sig við rafmagnsleysi meirihluta sólarhringsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert