Kýpur setur fram „plan B“

Forseti Kýpur mun á morgun kynna nýja björgunaráætlun, „Plan B“ fyrir leiðtogum helstu flokka landsins. Hann segir að taka verði ákvörðun eigi síðar en á morgun. Fyrr í dag var tilkynnt að bankar landsins, sem hefur verið haldið lokuðum alla vikuna, verði áfram lokaðir á morgun.

Dagurinn á Kýpur hófst með neyðarfundi eftir að þingið hafnaði í gærkvöldi skilmálum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um setja þyrfti skatta á bankainnistæður Kýpverja til að björgunarpakki fengist greiddur út.

Í ríkissjónvarpi Kýpur var í kvöld talað um að nýju skilmálarnir kunni þó að fela í sér skatt á bankainnistæður yfir 100.000 evrum. Samkvæmt fyrri tillögu átti einnig að leggja skatt á lægri upphæðir, þ.e. innistæður á bilinu 20.000 til 100.000 evrur og brugðust Kýpverjar við af mikilli reiði.

AP fréttastofan hefur eftir ónefndum embættismanni að nýi björgunarpakkinn feli m.a. í sér einhvers konar aðstoð frá Rússlandi, en það hefur ekki verið skýrt frekar. Fjármálaráðherra Kýpur, Michalis Sarris, er nú staddur í Moskvu til samningaviðræðna við stjórnvöld þar, en Rússar hafa gert margra milljarða dala fjárfestingar á Kýpur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert