Efnahagur Kýpur er „á brúninni“ og þarf nauðsynlega á líflínu frá Evrópu að halda. Þetta sagði stærsti banki eyríkisins, Kýpurbankinn, í yfirlýsingu í dag. „Næsta skref gæti orðið björgun eða eyðilegging efnahagslífsins,“ segir í yfirlýsingu bankans.
Allir bankar landsins hafa verið lokaðir í vikunni og verða það áfram fram á þriðjudag til að koma í veg fyrir bankaáhlaup, en langar raðir hafa verið við hraðbanka á eyjunni, sem sumir hverjir afgreiða enn reiðufé.
„Það er orðrómur um að Laiki bankinn muni aldrei opna aftur. Ég vil ná út eins miklum peningum og ég get,“ hefur BBC eftir ellilífeyrisþeganum Phaedon Vassiliades sem var við hraðbanka í höfuðborginni Nicosia í dag.
Seðlabanki Evrópu kann að loka fyrir lánalínur
Stærstu bankar landsins eru sagðir í bráðri hættu á falli fáist ekki neyðarlán. Seðlabanki Evrópu hefur gefið Kýpverjum frest fram á mánudag til að safna nægilegu fé til að tryggja að björgunarpakki frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fáist greiddur út.
Þjóðþing Kýpur hafnaði fyrr í vikunni þeim skilmálum sem settir voru fyrir björgunarláninu, að setja þyrfti skatt á bankainnistæður. Náist ekki samkomulag um „plan B“ fyrir mánudag kann svo að fara að Seðlabanki Evrópu loki fyrir lánalínur til kýpverskra banka. Er þá næsta víst að bankarnir munu falla.
Að sögn BBC þurfa kýpversk stjórnvöld að sýna fram á 5,8 milljarða evru sparnað til að uppfylla skilyrði til að fá greitt út 10 milljarða evru neyðarlán ESB og AGS. Fjármálaráðherrar evrusvæðisins halda símafund um ástandið í kvöld. Þeir ræddu við forseta Kýpur, Nicos Anastasiades í dag og að sögn BBC er nú verið að ræða nýja skilmála björgunarpakkans í þinginu.