Krugman vill að Kýpur elti Ísland

Hagfræðingurinn Paul Krugman flytur fyrirlestur á ráðstefnu í Hörpu
Hagfræðingurinn Paul Krugman flytur fyrirlestur á ráðstefnu í Hörpu

Hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman segir á bloggsíðu sinni á vef bandaríska dagblaðsins New York Times að Kýpur sé jafnvel enn betur fallið til að grípa til þeirra aðgerða sem Íslendingar hafi gripið til í kjölfar bankahrunsins hér á landi en Ísland á sínum tíma.

Krugman segir að öllum sé ljóst hver staða Kýpur sé nú, en sú fullvissa sé engin friðþæging. „Raunar lítur út fyrir að á Kýpur hafi takist að sameinast á einn stað allt það sem fór úrskeiðis alls staðar annars staðar,“ segir hagfræðingurinn.

Á Kýpur sé ofvaxið bankakerfi, átta sinnum stærra en verg ársframleiðsla ríkisins, sem byggi á því að laða til sín erlent fé með háum vöxtum. Þar sé risastór fasteignabóla á sömu nótum og hafi verið á Írlandi og Spáni og verðhækkanir hafi verið miklu meiri en annars staðar á evrusvæðinu.

„Hvað er til ráða? Fyrir það fyrsta geta kýpverskir bankar ekki staðið undir skuldum sínum sem því miður eru í flestum tilfellum innistæður. Fyrir vikið er óhjákvæmilegt að þeir geti ekki greitt þær út,“ segir Krugman.

Hann segir að orsök vandans á Kýpur sé klúður bæði ráðamanna landsins og Evrópusambandsins. Evrópusambandið hafi þannig ekki viljað að tekið væri með sértækum hætti á vanda kýpverskra banka sem hefði þýtt að hægt hefði verið að veita minni innistæðum sem tryggðar væru forgang. Stjórnvöld á Kýpur væru hins vegar enn haldin þeirri sjálfsblekkingu að hægt sé að bjarga bankakerfi landsins.

Niðurstaðan verði líklega að innistæður yfir 100 þúsund evrum verði að miklu leyti afskrifaðar. Það muni þó ekki leysa vandann. Fasteignabóla sem eigi eftir að springa sé enn til staðar, samkeppnishæfni Kýpur standi höllum fæti og björgunaraðgerðir Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þýði að skuldir landsins aukist gríðarlega.

„En hvað svo? Eins og margir hafa bent á þá er Kýpur að öllum líkindum í betri stöðu en Ísland til þess að fara íslensku leiðina þar sem gengisfelling nýs kýpversks gjaldmiðils gæti þýtt mikla aukningu í ferðamannageiranum,“ segir Krugman. Það sé hins vegar annað mál hvort Kýpverjar séu reiðubúnir að fara þá leið.

Blogg Pauls Krugman

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert