Ekkert lát virðist ætla að verða á kuldakastinu í Bretlandi næstu daga en þúsundir heimila í Cumbriu, Skotlandi og Norður-Írlandi eru án rafmagns.
Á vef Guardian kemur fram að víða á Englandi, Skotlandi og Norður-Írlandi hafi snjóað mikið og hefur þurft að loka vegum, aflýsa flugi og lestarferðum vegna óveðurs. Ekki er búist við því að veðrið skáni fyrr en á fimmtudag.
Breska veðurstofan hefur varað við því að á sama tíma og mikil snjókoma geri íbúum gramt í geði þurfi að varast ísingu á vegum. Ísing hefur einnig tafið störf viðgerðarmanna hjá orkufyrirtækjunum en 12.500 heimili á N-Írlandi, 10 þúsund í Skotlandi, 500 í Wales og 200 í Cumbriu hafa verið án rafmagns í allan dag.
Byrjað er að veðja um það hjá veðbönkum hvort það verði snjór yfir Lundúnum á páskadag en óvenju kalt er víða í Evrópu þessa dagana miðað við árstíma.