Boðar hertar reglur gagnvart innflytjendum

David Cameron kynnti hugmyndir sínar á fundi í Ipswich í …
David Cameron kynnti hugmyndir sínar á fundi í Ipswich í dag. AFP

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, kynnti í dag hertar reglur gagnvart innflytjendum, meðal annars varðandi rétt þeirra til heilbrigðisþjónustu, greiðslu atvinnuleysisbóta og húsaleigubóta.

Cameron segir að allt of vægt hafi verið tekið á málefnum innflytjenda hingað til en samkvæmt nýju reglunum falla atvinnuleysisbætur til þeirra niður eftir hálft ár ef ekkert bendi til að þeir hafi reynt að útvega sér vinnu eða eigi von á því að fá vinnu. Eins megi þeir innflytjendur sem koma frá löndum utan EES eiga von á því að þurfa að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. Segir hann að slík almannaþjónusta sé ekki sjálfsagður réttur heldur eitthvað sem fólk vinni sér inn. „Við viljum fá hingað fólk sem hefur eitthvað að bjóða fyrir Bretland.“

Er þetta liður í áætlun bresku ríkisstjórnarinnar að draga úr flæði innflytjenda úr fleiri hundruð þúsundum í nokkra tugi þúsunda á hverju ári.

Innflytjendur frá ríkjum ESB, Íslandi, Noregi og Liechtenstein eiga nú rétt á 71 pundi í atvinnuleysisbætur á viku í Bretlandi á meðan þeir leita að vinnu. Cameron segir að þetta verði að stöðva og samkvæmt þeim tillögum sem hann kynnti í dag verður greiðslu hætt til þessara innflytjenda eftir sex mánuði nema þeir geti sýnt það og sannað að þeir eigi verulega góða möguleika á að fá vinn, meðal annars með því að tala ensku vel.

Cameron gagnrýndi einnig hóp sem hefur verið nefndur heilsuferðamenn en hingað til hefur fólk ekki þurft að greiða fyrir aðgang að heilbrigðisþjónustu í Bretlandi. Þessu verður breytt samkvæmt tillögunum.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Ásgrímur Hartmannsson: Um
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert