Þjóðverjar óttast um innistæður

Evran.
Evran. AFP

Nærri helmingur Þjóðverja hefur áhyggjur af bankainnistæðum sínum. Eins og nýleg dæmi frá Kýpur sýna eru innistæður ekki öruggar. Atkvæðagreiðsla um skatt á allar innistæður var felld, en búið er að frysta innistæður yfir 100 þúsund evrum. Þá óttast hagfræðingar að verðbólga muni láta á sér kræla innan tíðar þar sem aukin peningaprentun er nauðsynleg til að fjármagna björgunarpakka skuldugra þjóða

Af hverju ekki á Spáni líka ?

Í frétt Der Spiegel um málið er farið yfir það hvernig traust hafi minnkað á stofnanir í Þýskalandi í kjölfar þessara atburða. Margir eru minnugir þess þegar settur var skattur á fasteignir í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og því fordæmi fyrir eignaupptöku í landinu. Nýleg rannsókn Seðlabanka Þýskalands sýndi að Spánverjar ráða að meðaltali yfir meiri auðæfum en Þjóðverjar. Hafa í kjölfarið komið fram hugmyndir um að réttlætanlegt væri fyrir spænsk yfirvöld að setja sérstakan skatt á innistæður eða fasteignir til að bregðast við skuldavanda þjóðarinnar í stað þess að velta vandanum yfir á aðrar þjóðir ESB.

Sama er upp á teningnum í Grikklandi og Kýpur þar sem margir högnuðust gríðarlega í bólu sem myndaðist í hagkerfum ríkjanna fyrir árið 2008. Benda margir á að sanngjarnara væri að sækja í þessa vasa en að deila kostnaði af björgunarpakka þjóðanna á skattgreiðendur hinna ríkjanna. Líklega hafa þau sjónarmið orðið ofan á þegar kýpversk stjórnvöld ákváðu að frysta eignir yfir 100 þúsund evrum en tryggja lægri innistæður.

Óttast verðbólgu

Þá óttast margir hagfræðingar á að verðbólgudraugurinn sé handan við hornið. Peningaprentun hafi aukist mikið til þess að fjármagna björgunarpakka þeirra þjóða sem þurfa á aðstoð að halda. Líklegt þyki að slíkt muni á endanum leiða til frekari verðbólgu á evrusvæðinu og fari verðbólgan upp í 4-5% mun það helminga sparnað fólks að raunvirði á 15 árum.

Hin hliðin á teningnum er sú að verðbólgan étur jafnframt upp skuldir að raunvirði og benda sumir hagfræðingar á að skuldugar stórþjóðir á borð við Breta, Japani og Bandaríkjamenn sjái það jafnvel sem leið til þess að komast undan skuldaklafanum sem þjóðirnar glíma við. Því sé sá möguleiki til staðar að hvata vanti í kerfinu til þess að verja bankainnistæður.  

Bent er á að aðeins þeir sem eiga nægt fjármagn geta dreift áhættunni með hjálp fjárfestingarsjóða. Því gæti kreppan leitt til þess að þeir einu sem tapi á þessari þróun séu hinir tekjulægri, þ.e. launafólk. Á sama tíma haldi hinir eignameiri sínu.  

Der Spiegel segir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert