Þjóðir eins og Rúanda, Nepal og Bangladess gætu útrýmt fátækt á næstu tuttugu árum. Aðrar þjóðir þar sem dregur hratt úr fátækt eru Gana, Tansanía, Kambódía og Bólívía.
Þetta kemur fram í skýrslu um fátækt í heiminum sem unnin er af Oxford háskóla, Glopal MDI 2013 en um skýrsluna er fjallað í nýjasta fréttabréfi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, Heimsljósi.
MDI vísar í mælikvarða til greiningar á fátækt sem tekur fleiri atriði með í reikninginn en tekjur til að ná utan um fátæktarviðmið, m.a. næringu og menntun. Vísitalan kallast „The Multidimensional Poverty Index (MPI)“ og hefur verið þróuð af Oxford háskólanum og UNDP, Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna.
Greining á fátækt með MDI viðmiðum staðfestir að sárafátækt er á hröðu undanhaldi í heiminum. Þau atriði sem MDI útreikningar á fátækt byggjast á eru næring, barnadauði, árafjöldi og viðvera í skóla, orkugjafar til eldunar, vatn, hreinlæti, aðgengi að rafmangi og gólfefni.
40% fáækra í Indlandi
Rannsóknin leiddi í ljós að 1,6 milljarður manna býr við „fjölvíða“ fátækt. Fátækasti milljarðurinn býr í 100 löndum. Flestir þeirra búa í Suður-Asíu, þar af 40% á Indlandi. Í Afríku sunnan Sahara búa 33% þeirra sárafátækustu. Skýrslan sýnir líka að 9.5% af þessum milljarði býr í þróuðum ríkjum, í efri hluta meðaltekjuríkja.
„Eins og fátækt fólk um allan heim segir þá er fátækt er meira en peningar - það er heilsuleysi, mataróöryggi, það er að hafa ekki vinnu, eða upplifa ofbeldi og niðurlægingu, hafa ekki aðgang að heilsugæslu, rafmagni, eða góðu húsnæði,“ segir Sabina Alkire prófessor við Oxford háskóla í frétt The Guardian en hún er ein þeirra vísindamanna sem hafa þróað MDI.