Rólegt var yfir Kýpurbúum þegar bankar voru opnaður að nýju í dag eftir að hafa verið lokaðir í næstum tvær vikur. Viðmælendur AFP fréttastofunnar sögðust áhyggjufullir en höfðu trú á því að landið komist út úr efnahagsvandræðum sínum.
„Að sjálfsögðu hef ég áhyggjur. Allir hafa áhyggjur,“ sagði einn viðmælanda. „En þegar allt kemur til alls þurfum við að vinna úr málunum, finna lausnir og svör. Við verðum að vinna okkur út úr þessu sjálf.“
Bankaútibú voru opnuð klukkan tíu á Kýpur í morgun og voru vopnaðir lögregluþjónar við flesta þeirra. Búist var við mikilli reiði og jafnvel að upp úr syði enda gjaldeyrishöft verið sett og bankaviðskipti því takmörkuð. Hins vegar gekk dagurinn vel fyrri sig og án teljandi vandræða.
Á vef breska ríkisútvarpsins er farið yfir hvað felist í höftunum á Kýpur en þar má nefna að ekki er tekið við ávísunum, þeir sem ferðast til útlanda mega ekki taka meira en 1.000 evrur út úr landinu og að hámarki má greiða með kredit- eða debetkorti í útlöndum fyrir fimm þúsund evrur á mánuði. Sérstök nefnd fer yfir beiðnir um millifærslur fyrir 5-200 þúsund evrur. Allar millifærslur yfir 200 þúsund evrur verða skoðaðar sérstaklega.
Þeir sem eiga 100 þúsund evrur eða meira inni á bankareikningum þurfa að greiða skatt sem fellst í því að hluta fjárhæðarinnar verður breytt í hlutabréf í kýpverskum bönkum. Er þetta meðal þeirra leiða sem stjórnvöld beita til þess að ná 5,8 milljörðum evra tryggingu sem var gerð að skilyrði fyrir 10 milljarða evra láni Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Kýpur.