Engin áform eru um að Kýpur yfirgefi evrusvæðið. Þetta segir Nicos Anastasiades, forseti landsins og segir efnahagsástand Kýpur stöðugra nú, eftir að ríkið fékk lán upp á 10 milljarða evra frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Þetta sagði Anastasiades á ráðstefnu ríkisstarfsmanna sem haldin var í morgun og hann þakkaði þar þjóð sinni fyrir að hafa sýnt „einstaka þolinmæði“ að undanförnu.
Bankar á Kýpur verða opnir samkvæmt venju í dag, en þeir voru opnaðir í gær eftir að hafa verið lokaðir í tæpar tvær vikur. Í gær voru settar þær reglur að hver og einn viðskiptavinur gæti tekið út að hámarki 300 evrur og sú regla gildir áfram í dag og mun hugsanlega verða í gildi næsta mánuðinn að sögn utanríkisráðherra landsins, Ioannis Kasoulides