Frans páfi hóf embættisverk páskahátíðarinnar með því að þvo og kyssa fætur tólf ungra fanga í gær, en það er aldagömul páskahefð páfa af þvo fætur og er til marks um þegar Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. En núna gerðist það í fyrsta skiptið í sögunni að páfi þvær fætur sakamanna.
Meðal sakamannanna voru konur og múslímar og þetta er líka í fyrsta skiptið sem páfi þvær fætur kvenna, en fyrri páfar hafa að öllu jöfnu þvegið fætur presta.
Síðar í dag mun páfi flytja píslarsöguna í Péturskirkjunni í Róm áður en hann gengur hina svokölluðu Krossleið, eða Via Crucis að hringleikahúsinu Colosseum, þar sem þúsundir kristinna manna létu lífið fyrir trú sína á öldum áður.
Þátttaka Frans páfa í göngunni þykir til marks um þær breyttu áherslur sem nú eru í páfagarði, en Benedikt XVI, forveri hans í páfastól, horfði á krossleiðina í fyrra þar sem hann sat undir sólskyggni. Búist er við því að Frans páfi muni bera trékross hluta leiðarinnar.
Á morgun mun páfi síðan taka þátt í kvöldmessu í Péturskirkjunni og á páskadag heldur hann páskamessu á Péturstorginu að viðstöddum tugþúsundum. Að því búnu mun hann blessa Róm og alla jarðarbúa með hinni hefðbundnu Urbi et Orbi bæn.