Fordæma einhliða kvótaákvörðun

Makríll.
Makríll. Ljósmynd/ Albert Kemp

Ákvörðun Færeyinga þess efnis að setja sér einhliða kvóta í norsk-íslenskri síld og makríl hefur vakið upp viðbrögð meðal ráðamanna í Noregi og Brussel.

Í yfirlýsingu sem sjávarútvegsráðherra Noregs, Lisbeth Berg-Hansen, og sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, Maria Damanaki, sendu sameiginlega frá sér vegna málsins er ákvörðunin fordæmd.

Þessi einhliða ákvörðun Færeyinga er sögð vera mikið áhyggjuefni og eru fyrirhugaðar veiðar kallaðar óhóflegar og ósjálfbærar.

„Hvað makrílinn snertir þá hafa Færeyingar sett sér einhliða kvóta sem nemur 23% af heildarveiði samkvæmt ráðgjöf vísindamanna. Þeir hafa einnig tilkynnt áform sín um að bæta við ónýttum kvóta frá árinu 2012,“ segir í tilkynningunni.

Nýverið tilkynnti sjávarútvegsráðherra Færeyja, Jacob Vestergaard, um einhliða kvóta í norsk-íslenskri síld. Nemur kvótinn 17% af heildarveiði samkvæmt ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins, sem er 619.000 tonn fyrir árið 2013. Felur ákvörðunin í sér rúmlega þrefalda hækkun hlutdeildar Færeyinga.

Í tilkynningu Berg-Hansens og Damanakis er ákvörðun Færeyinga sögð valda miklum áhyggjum og til þess fallin að setja sjálfbærni veiðanna og framtíð fiskistofnsins í uppnám.

„Við hvetjum Færeyinga til að falla frá þessum áformum sínum.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka