Stjórnvöld í Norður-Kóreu tilkynntu í nótt að stríðsástand ríkti nú í samskiptum þeirra við Suður-Kóreu. Þau vara stjórnvöld í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu við því að hvers konar ögrun gæti á skammri stundu leitt til kjarnavopnastríðs.
„Héðan í frá eru Kóreuríkin í stríði og öll samskipti á milli þeirra munu fara fram samkvæmt því,“ segir í yfirlýsingunni sem birt var af ríkisfréttastofu Norður-Kóreu. Þar segir að lengi hafi hvorki ríkt friður né stríð á Kóreuskaga, en nú væri því ástandi lokið.
Bandarísk stjórnvöld segjast taka yfirlýsinguna alvarlega en bentu á að áþekkar yfirlýsingar hefðu heyrst áður. „Stjórnvöld í Norður-Kóreu eiga sér langa sögu af herskáum yfirlýsingum og hótunum og yfirlýsingin í dag er í þeim anda,“ sagði Caitlin Hayden, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, í samtali við AFP-fréttastofuna.
Stjórnvöld í Suður-Kóreu láta sér fátt um finnast og segja þetta vera gamla hótun klædda í nýjan búning. Varnarmálaráðuneyti landsins sagði þó að brugðist yrði við hverri þeirri ógn sem upp kynni að koma en sagði að engin merki væru um að Norður-Kóreumenn hygðu í raun og veru á hernað.
Segja má að Kóreuríkin tvö hafi verið í stríði frá árinu 1953, frá lokum Kóreustríðsins. Stríðinu lauk með vopnahléi en friðarsamningur var aldrei gerður og stríðinu því aldrei tæknilega lokið.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu sögðu upp vopnahléssamkomulaginu og öðrum samningum við Suður-Kóreu fyrir nokkru til að mótmæla sameiginlegum heræfingum Bandaríkjanna og Suður-Kóreu sem hófust þann 11. mars. Æfingarnar, sem eru haldnar árlega, valda að öllu jöfnu titringi hjá ráðamönnum í Norður-Kóreu, en viðbrögðin nú þykja óvenju sterk.
Alþjóðasamfélagið hefur af þessu þungar áhyggjur og hafa bæði Rússar og Kínverjar hvatt til stillingar og sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands í gær, að fyllsta ástæða væri til að hafa verulegar áhyggjur af ástandi mála á Kóreuskaganum. „Einhliða ákvarðanir eru teknar í Norður-Kóreu sem eru síðan staðfestar með sívaxandi viðbúnaði hersins,“ sagði Lavrov. „Við teljum að það sé nauðsynlegt að viðkomandi aðilar notfæri sér ekki ástandið til þess að gera upp ýmis deilumál.“
Bæði ESB og Sameinuðu þjóðirnar hafa komið á margvíslegum refsiaðgerðum gagnvart Norður-Kóreu undanfarnar vikur vegna kjarnorkusprengingar þeirra í tilraunaskyni í byrjun febrúar. Þá hafa eldflaugatilraunir þeirra valdið titringi í alþjóðasamfélaginu, en her Norður-Kóreu skaut langdrægri eldflaug á loft í desember síðastliðnum.