Forstjóri Samoa Air, Chris Langton, segir að það hafi verið rétt ákvörðun hjá flugfélaginu að taka upp á því að rukka flugfarþega í samræmi við þyngd þeirra.
Langton sagði í samtali við áströlsku útvarpsstöðina ABC að þetta væri „sanngjarnasta leiðin til að ferðast“.
Í stað þess að greiða fyrir ákveðið sæti þá er farþegum Samoa Air gert að greiða ákveðið gjald sem miðast við þyngd viðkomandi í kílóum talið. Verðið er mismunandi hátt eftir lengd flugferðarinnar.
Samoa Air býður upp á innanlandsflug á Samóaeyjum, sem eru á Kyrrahafi, en félagið flýgur einnig til amerísku Samóeyja. Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að ákvörðunin geti leitt til þess að önnur flugfélög muni einnig ákveða að verðleggja ferðir útfrá þyngdarstuðli farþega.
Langton segir að þyngd en ekki sætisfjöldi sé ráðandi þáttur í rekstri flugfélaga. Því minni sem flugvélin sé því minna svigrúm hafi menn varðandi þyngd.
„Öllum sem ferðast finnst stundum að þeir séu að greiða hálft verð fyrir farþegann sem situr við hliðina á þeim,“ segir Langton.
Langton segir að samkvæmt nýja skipulaginu muni sumar barnafjölskyldur í raun greiða lægra verð fyrir fjölskylduferðir.
„Það eru engin aukagjöld hvað varðar aukafarangur eða annað slíkt - þetta er bara kíló er kíló er kíló,“ sagði hann.
Samkvæmt verðskrá Samoa Air getur verð á einu kílói numið frá 1 dal til 4,16 dali. Farþegar eru rukkaðir fyrir heildarþyngd, þ.e. eigin þyngd og þyngd farangursins.
Langton heldur því jafnframt fram, að ákvörðun flugfélagsins hafi átt þátt í því að vekja íbúa á Samóaeyjum til vitundar um bætt heilsufar. Þar offita mikið vandamál en hlutfall of feitra á Samóaeyjum með því hæsta sem gerist í heiminum.