Franskur læknir sem starfaði við gerð raunveruleikaþátta framdi sjálfsvíg í Kambódíu í gær. Í sjálfsvígsbréfi sem læknirinn, Thierry Costa, skildi eftir kemur fram að umræða í fjölmiðlum undanfarna daga eftir að þátttakandi í þættinum lést við tökur í Kambódíu hafi reynst honum óbærileg.
Costa, 38 ára, segir í bréfinu að mannorð hans hafi verið eyðilagt í fjölmiðlum eftir að Gerald Babin, 25 ára, lést úr hjartaáfalli á fyrsta tökudegi á kambódísku eyjunni Koh Rong þann 22. mars sl.
Í einhverjum fjölmiðlum voru viðbrögð Costa gagnrýnd og að hann hafi ekki sent hann nægjanlega fljótt á sjúkrahús. Babin hafði kvartað undan krampa og veitti Costa honum fyrstu hjálp áður en hann óskaði eftir því að Babin yrði fluttur með flugi á sjúkrahús á meginlandinu. Babin lést fljótlega eftir komuna á sjúkrahús. Frönsk yfirvöld hafa sett af stað rannsókn á andláti hans.
Sjónvarpsstöðin TF1, sem sýnir þættina, sem er lýst eins og franskri útgáfu af bandarísku raunveruleikaþáttunum Survivor, hefur ákveðið að hætta við gerð þáttanna vegna dauða Babins.
Framleiðendur þáttanna, Adventure Line Productions, hafa staðfest að Costa hafi framið sjálfsvíg á hótelherbergi sínu í Kambódíu í gær, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins.
Í sjálfsvígsbréfinu segir Costa að gagnrýnin á hann sé ósanngjörn og að aðhlynning sjúklingsins hafi verið í samræmi við það sem eðlilegt er. Þrátt fyrir hörmulegt fráfall Babin hafi hann ekki brotið gegn Hippókrates-eiðnum.
Costa óskaði eftir því í bréfinu að útför hans fari fram í Kambódíu og að jarðneskar leifar hans fari aldrei til Frakklands.