Einræðisherrann Kim Jong Ung sendir frá sér hverja yfirdrifnu hótunina á fætur annarri um kjarnorkustríð gegn Bandaríkjunum. Stjórnvöld í Washington leggja áherslu á að róa almenning með því að hótanirnar séu innantómar. Engu að síður er hættan á kjarnorkustríði við Norður-Kóreu alls ekki óhugsandi.
Þetta segja þeir Edmund A. Walsh, prófessor við Georgetown University í Washington, og Daryl G. Press, prófessor við Dartmouth háskóla, í grein sem birtist í bandaríska tímaritinu Foreign Affairs undir fyrirsögninni „Næsta Kóreustríð“.
Stríð á Kóreuskaga þýðir kjarnorkustríð
Bandarísk stjórnvöld segja að þótt hugsanlegt sé að Norður-kóreumenn geri netárásir þá sé alveg ljóst að kommúnistaleiðtogarnir í Pyongyang vilji lifa af. Því sé í reynd afar ólíklegt að gripið verði til heimskulegra ráða eins og að beita kjarnorkuvopnum.
Þeir Walsh og Press taka undir með Bandaríkjastjórn að stóryrði Kim Jong Un séu líklega sýndarhótanir. Ástandið sem nú ríki hafi þó engu að síður aukið hættuna á átökum og hvers konar átök sem kunnið að brjótast út við Norður-Kóreu séu líkleg til að leiða til kjarnorkuvopnanotkunar. Stríð á Kóreuskaga þýði kjarnorkustríð.
„Bandaríkjastjórn ætti að halda áfram að reyna að koma í veg fyrir stríð á Kóreuskaga. En ekki síður mikilvægt er að stríðsáætlanir Bandaríkjanna séu endurskoðaðar þannig að dregið sé úr hættunni á því að átökin endi með því að gripið verði til kjarnorkuvopna.
Hefðbundið stríð myndi þýða algjört tap Norður-Kóreu
„Það kaldhæðnislega er að hættan á kjarnorkustríði í Norður-Kóreu stafar ekki af máttleysi Bandaríkjanna og Suður-Kóreu, heldur af styrk þeirra,“ segir í grein Foreign Policy.
„Norður-kóreski herinn er með takmarkaða þjálfun og úreltan búnað. Ef stríð brytist út myndi hann engan veginn standast sameiginlegum her Bandaríkjanna og Suður-Kóreu snúning [...] Hefðbundið stríð myndi þýða algjört tap og hersveitir Suður-Kóreu færu fljótt yfir landamærin og í norður.
Þegar að því kæmi þyrfti innsti hringur Norður-Kóreu að taka alvarlega ákvörðun: hvernig forðast megi hörmuleg örlög leiðtoga eins og Saddam Hussein og Múammar Gaddafi. Kim, fjölskylda hans og samverkamenn gætu reynt að flýja til Kína og sækja eftir þægilegu, lífstíðarlöngu hæli þar, en líkurnar á því verða æ minni eftir því sem Kínverjar verða pirraðri á harðstjórn Kims.
Hinn kosturinn fyrir stjórnvöld í Pyongyang væri að reyna að þvinga fram vopnahlé með eina trompi sínu: kjarnorkuvopnum.“
Sama aðferð og NATO beitti í Kalda stríðinu
Þeir Walsh og Press segja enga leið að vita nákvæmlega hvernig Kim gæti beitt kjarnorkuvopnabúri sínu til að stöðva framgöngu Suður-Kóreuhers til Pyongyang. Lykilstaða hans væri hins vegar að þvinga fram vopnahlé með því að hóta árás á nokkrar fjölmennar borgir í Suður-Kóreu eða Japan.
Í grein Foreign Affairs segir að það sé alls ekki langsótt að hugsa sér að Norður-Kórea muni beita slíkri herkænsku. Þetta hafi nú einu sinni verið helsta herbragð NATO lungann úr Kalda stríðinu. Bæði Pakistan og Rússland reiði sig á svipaða nálgun gagnvart hættum sem að þeim stafa.
„Sérfræðingar eru of fljótir á sér að afgreiða hugmyndina um að stjórnvöld í Norður-Kóreu gætu vísvitandi reynt að magna hefðbundin átök upp í kjarnorkuátök. En ef valið stendur á milli harðari átaka eða snörunnar, þá er óljóst hvers vegna þeir ættu ekki að vera jafn vægðarlausir og þeir sem sömdu viðbragðsáætlanir til að verja NATO.“
Óvíst hvort þeir geti beitt kjarnorkuvopnum
Eina leiðin til að koma í veg fyrir kjarnorkustríð á Kóreuskaga er, að mati Walsh og Press, að fullvissa leiðtoga kommúnistaríkisins um að þeir muni komast af. Aðferð Bandaríkjahers hefur í stríðsátökum síðustu áratuga gengið út á að einangra stjórnvöld í viðkomandi landi. Stríðsrekstur með það að markmiði gæti hins vegar haft öfugverkandi áhrif í Norður-Kóreu.
Góðu fréttirnar eru þær, samkvæmt Foreign Affairs, að alls óvíst er hvort Norður-Kórea hefur getu til að beita kjarnorkuvopnum. „Miðað við hvernig þeim miðar áfram er hinsvegar ljóst að ef Norður-Kórea getur það ekki í dag, þá mun hún geta það innan tíðar.“