Óvíst er hversu lengi verkbann um 60.000 danskra kennara kann að standa, en það tók gildi í gær eftir að viðræður kennara við samband sveitarfélaga um vinnufyrirkomulag kennara runnu út í sandinn. Kennarar mótmæla verkbanninu og um 900.000 nemendur sitja nú heima annan daginn í röð, þar af 557.000 grunnskólanemendur. Hinir eru nemendur í öðrum skólum.
Af þessum 60.000 kennurum starfa 50.000 í almennum grunnskólum sem reknir eru af sveitarfélögunum, aðrir starfa hjá einkaskólum, svokölluðum eftirskólum, tungumálaskólum, við fullorðinsfræðslu og í ýmsum sérskólum.
Ástandið hefur víðtæk áhrif á þjóðfélagið allt, þrátt fyrir að fjölmargir vinnustaðir hafi gert ýmsar ráðstafanir til að koma til móts við foreldra skólabarna.
En hvers vegna er verið að banna kennurum að vinna og um hvað er deilt?
Þessar deilur eiga rætur sínar að rekja til þeirra breytinga á grunnskólastarfi sem ríkisstjórnin hefur boðað að taki gildi haustið 2014. Þær eru til þess ætlaðar að bæta árangur danskra grunnskólanemenda og felast meðal annars í því að lengja skóladaginn.
Grunnskólakennarar í Danmörku hafa um hríð bent á að breyttar þjóðfélagsaðstæður, miklar kröfur til grunnskólanna og aukinn vandi barna á ýmsum sviðum hafi gert það að verkum að starf grunnskólakennarans hafi tekið miklum breytingum. Kennararnir hafa, líkt og íslenskir grunnskólakennarar, bent á að kennsla færist sífellt neðar á listann yfir þau fjölmörgu störf sem kennurum ber að sinna.
Samkvæmt Pisa-rannsókninni ljúka 15-17% danskra barna grunnskóla án þess að búa yfir grunnþekkingu í dönsku, stærðfræði og náttúrufræði. Þessu vilja stjórnvöld breyta m.a. með lengingu skóladagsins og breyttum áherslum í kennslunni. Félag danskra grunnskólakennara hefur gagnrýnt að ekki sé gert ráð fyrir því að veita nægilegu fé til skólanna til að framkvæma þessar breytingar, heldur eigi að koma þeim í gegn með því að auka álagið á starfsfólk skólanna. Kennarar segja ennfremur að lítið sé hlustað á tillögur þeirra að bættu skólastarfi.
Að setja verkbann á kennara kann að hljóma undarlega, en hér er starfað samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda í Danmörku um störf kennara. Þetta kallast „lockout“ á dönsku og það sem gerist er að sveitarfélögin „læsa skólunum“ og meina kennurum þannig aðgang.
Ekkert er því til fyrirstöðu að ríkisstjórnin grípi inn í og reyni að leysa deiluna með einhverjum hætti, en það virðist þó ekki vera líklegt í bráð, sé eitthvað að marka fullyrðingar Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra landsins, um að „danska módelið“ eigi að fá ráðrúm til að virka. Með þessu átti hún við að deilur sem þessar séu hluti af lýðræðissamfélagi og að þær verði að fá að hafa sinn gang án íhlutunar ríkisstjórnarinnar. „Það er óviðeigandi að velta vöngum yfir hugsanlegu inngripi ríkisstjórnarinnar í deiluna,“ sagði Thorning-Schmidt á blaðamannafundi í gær.
„Launþegar hafa möguleika á að fara í verkfall og við erum líka með verkbannsmöguleikann sem getur verið notaður þegar aðilar ná ekki saman. Báðar þessar aðferðir hafa þann tilgang að færa deiluaðila nær hvorum öðrum í aðstæðum sem þeir hafa ekki getað náð saman um. Þess vegna skulum við láta þá um að leysa þetta,“ sagði Thorning-Schmidt og fullyrðir að verkbannið hafi engin áhrif á námslok þeirra sem eru á síðasta ári grunnskólans.
Ýmsar vangaveltur eru um hversu lengi verkbannið kunni að standa. Til dæmis er leitt að því líkum í grein á vef Berlingske Tidende að það verði í a.m.k. þrjár vikur áður en ríkisstjórnin grípi inn í. Sjálfir segjast kennarar eiga vinnudeilusjóð sem dugar þeim í tíu vikur. Að auki geta kennarar fengið lán á góðum kjörum hjá sínu stéttarfélagi.
Í þessu sambandi er áhugavert að skoða fréttaflutning danskra fjölmiðla af verkbanninu og hvernig almenningur í Danmörku tjáir sig um ástand mála á samskiptasíðum. Svo virðist sem almennur skilningur sé á kröfum kennara, ekki er að sjá að foreldrar skólabarna séu almennt að agnúast út í kennara, ólíkt því sem verið hefur þegar íslenskir kennarar hafa verið í kjarabaráttu í gegnum tíðina.