Skal þola lömun fyrir að lama

Maðurinn verður bundinn við hjólastól eftir aðgerðina.
Maðurinn verður bundinn við hjólastól eftir aðgerðina. wikipedia.org

Dómstóll í Sádi-Arabíu hefur dæmt 24 ára karlmann til að undirgangast aðgerð sem hefur þann tilgang einan að lama hann fyrir neðan mitti. Er það refsing fyrir að stinga vin sinn í bakið fyrir tíu árum sem leiddi til þess að vinurinn lamaðist fyrir neðan mitti.

Mannréttindasamtökin alþjóðlegu Amnesty hafa fordæmt dóminn sem þau segja hörmulegan og að í raun sé ekki annað gert en að pynta hinn dæmda. Samkvæmt Sharía-lögum er heimilt að beita hinni svonefndu „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“-refsingu. Með dómum í landinu hafa tennur verið dregnar úr mönnum og augu stungin úr þeim.

Maðurinn hefur undanfarin tíu ár verið í fangelsi vegna hnífstungunnar. Móðir hans segir hann aðeins hafa verið 14 ára ungling og að hann hafi stungið vin sinn í bakið eftir rifrildi þeirra á milli. Hún segir jafnframt að sonur sinn sleppi við refsinguna greiði hann fórnarlambinu jafnvirði 33 milljóna íslenskra króna í bætur. Það sé hins vegar ógerlegt fyrir fátæka fjölskyldu.

Óvíst er hversu langt liður þar til maðurinn gengst undir aðgerðina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert