Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa tilkynnt að þau geti ekki tryggt öryggi sendiráðsstarfsmanna í höfuðborg landsins, Pyongyang, eftir 10. apríl. Hvetja þau erlendar ríkisstjórnir til þess að flytja starfsmenn sína á brott vegna yfirvofandi kjarnorkuváar.
Hafa skilaboð þar að lútandi verið send til utanríkisþjónustu Bretlands, Rússlands og fleiri Evrópuríkja. Fyrr í dag var greint frá því að búið væri að flytja tvær meðaldrægar eldflaugar á austurströnd Norður-Kóreu.
Samkvæmt upplýsingum frá bresku utanríkisþjónustunni er nú verið að skoða næstu skref. Benda Bretar á að N-Kóreumenn séu bundnir Vínar-samkomulaginu sem kveður á um vernd stjórnarerindreka.
Rússar fengu einnig skilaboð frá stjórnvöldum í Norður-Kóreu en Rússar og Kínverjar standa N-Kóreu næst. Að sögn Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, eru stjórnvöld í Rússlandi í nánu sambandi við fleiri lönd, þar á meðal Kínverja vegna ástandsins á Kóreuskaga.
Her Norður-Kóreu tilkynnti fyrr í vikunni að hann hefði fengið „endanlega heimild“ frá stjórnvöldum til að gera eldflaugaárás á Bandaríkin, hugsanlega með kjarnavopnum. „Stund sprengingarinnar nálgast óðum,“ sagði í tilkynningu frá hernum sem ýjaði að því að hann réði yfir kjarnaoddum sem væru nógu litlir og léttir til að hægt væri að beita þeim með langdrægum eldflaugum. Sérfræðingar í öryggismálum telja þó ólíklegt að Norður-Kóreumönnum hafi tekist að þróa slíka kjarnaodda.
Fréttastofan Yonhap hafði eftir heimildarmönnum sínum í leyniþjónustu Suður-Kóreu að Norður-Kóreumenn kynnu að skjóta eldflaugum 15. apríl, á afmælisdegi Kim Il-Sung, fyrsta leiðtoga Norður-Kóreu og afa núverandi leiðtoga.
Nokkrir fréttaskýrendur hafa spáð því að Norður-Kóreumenn fylgi herskáum yfirlýsingum sínum eftir með því að skjóta eldflaug yfir Japan. Þeir telja ólíklegt að Norður-Kóreumenn vilji í raun og veru hefja allsherjarstríð gegn Bandaríkjunum en líklegra sé að þeir grípi til takmarkaðra, ögrandi aðgerða til að sýna hernaðarmátt sinn og reyna að bjarga andlitinu eftir allar stríðsyfirlýsingarnar.
Enginn veit þó með vissu hvað Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, gengur til og varað hefur verið við því að einhvers konar mistök geti orðið til þess að allt fari í bál og brand.
„Spurningin er hvort Kim, sem er ungur og óreyndur, viti hvernig taka eigi á þessari stigmögnuðu spennu. Hvernig lýkur þessu? Það er spurning sem vert er að hafa áhyggjur af,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Yun Duk-Min, prófessor í alþjóðastjórnmálum í Seoul og sérfræðingi í málefnum Norður-Kóreu.
Nokkrir fréttaskýrendur telja að meginmarkmiðið með þessum hótunum sé að knýja Bandaríkjastjórn til að hefja viðræður um friðarsamning við Norður-Kóreumenn. „Þeir virðast telja að þeir verði ekki teknir alvarlega fyrr en þeir geti hafið viðræður um þetta mál og notað verulegan hernaðarstyrk sér til framdráttar,“ hefur BBC eftir Andreu Berger, breskum sérfræðingi í baráttunni gegn útbreiðslu kjarnavopna.