Þrír breskir karlmenn hafa hlotið lífstíðarfangelsisdóm fyrir að berja dæmdan barnaníðing til dauða.
Geoffrey Reed, 57 ára, var barinn til dauða í íbúð sinni í Bournemouth, Dorset 7. júní á síðasta ári. Árásarmennirnir voru hálfbræðurnir Stuart og Lee Wareham og Benjamin Walter.
Stuart Wareham sem er 26 ára, var dæmdur í fangelsi til að minnsta kosti 20 ára en hann var sá sem skipulagði morðið. Hinir mennirnir tveir fá að minnsta kosti 18 ára fangelsisdóm, segir í frétt Guardian.
Stuart Wareham skrifaði bréf í gæsluvarðhaldinu þar sem stóð: „Núna er búið að taka einn barnaníðing úr umferð af götunum svo hann getur ekki níðst lengur á litlum börnum.“
Við réttarhöldin kom í ljós að Stuart Wareham hafði fundið upplýsingar um að Reed hefði setið í fangelsi í tíu ár fyrir tvær nauðganir. Í öðru tilvikinu var fórnarlambið barn.
Eftir að mennirnir þrír drápu Reed komu þeir líki hans fyrir í ferðatösku og sást einn þeirra á öryggismyndavél bera töskuna út úr íbúðinni.
Stuart Wareham bað svo systur sína til að aka sér að húsi ömmu þeirra. Hann væri með dauðan hund í töskunni sem hann ætlaði að grafa þar. Reed var svo grafinn við heimili ömmunnar í grunnri gröf.
Sporhundur fann líkið nokkrum dögum eftir að Reed var drepinn. Þá hafði hans verið saknað í nokkra daga.
Mennirnir þrír sýndu enga iðrun vegna morðsins við réttarhöldin.