Angela Merkel Þýskalandskanslari blandaði sér í umræðu um kröfu múslíma þar í landi um að kynin verði aðskilin í leikfimitímum. Segir hún að slíkt myndi senda röng skilaboð til samfélags sem stefni að frekari samruna og aðlögun.
Krafan nær eingöngu til múslímskra barna. Haft var eftir Merkel í Rheinische Post að ekki kæmi til greina að verða við þeim. Peer Steinbrück sem kemur úr flokki Sósíal demókrata, andstæðinga kristilegra demókrata sem Merkel fer fyrir, er á annarri skoðun. Í síðustu viku var haft eftir honum að hann skildi vel sjónarmið múslímskra foreldra.
Orð hans vöktu nokkuð umtal í þýskum fjölmiðlum. „Margir múslímskir foreldrar leysa þetta mál með því að senda börn sín ekki í leikfimitíma. Slíkt getur ekki verið farsæl lausn,“ segir Steinbrück.
Nokkrir stjórnmálamenn hafa tekið undir með honum en mun fleiri hafa þó lýst yfir vanþóknun sinni á skoðun Steinbrück sem þeir segja að sé andstæð kynjajafnrétti.