Þotuflugmenn hafa tvívegis sofnað á flugi nærri London á þremur árum. Þetta kemur fram í skýrslu frá breskum flugmálayfirvöldum (CAA). Atvikin áttu sér stað júní árin 2010 og 2011.
Samtök breskra flugmanna, Balpa, fullyrða að atvikin séu mun fleiri og gerist nær daglega í og við landið. Flugmenn hafa ítrekað vakið athygli á álagi og löngum vöktum. Flugmálayfirvöld segja þreytu ekki öryggisvandamál.
Fyrra atvikið sem staðfest hefur verið átti sér stað um borð í Airbus A319 flugvél þegar flugmaðurinn var að snúa vélinni að nýju í átt að ónefndum flugvelli eftir að hafa hætt við lendingu í fyrstu. Flugmaðurinn var vakinn af aðstoðarflugmanni sem brást fljótt við.
Hitt atvikið átti sér stað í Boeing 767 flugvél. Flugstjóri kom að læstum flugstjórnarklefa eftir að hann hafði brugðið sér frá. Komst hann inn með öryggislykli. Kom hann þar að aðstoðarflugmanninum sofandi.
Doktor Rob Hunter yfirmaður flugöryggismála hjá Balpa fullyrðir að atvik þar sem flugmenn sofni, eigi sér stað í það minnsta einu sinni á sólarhring nærri Bretlandi. Hins vegar séu fáir tilbúnir að koma fram og segja frá þar sem þeir myndu eiga á hættu að fá lögsókn sér á hendur. Flugmenn geta fengið allt að tveggja ára fangelsis fyrir að sofna í flugstjórnarklefanum.
Flugmálayfirvöld segja að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af þreytu flugmanna og að slík atvik séu sjaldgæf. Nýleg reglugerðarbreyting á Evrópulöggjöf gerði það að verkum að flugmenn vinna nú gjarnan lengur í einni beit en áður.