Sænska húsgagnakeðjan IKEA hefur innkallað tæplega 18.000 skammta af lasagnaréttum í Evrópu sem áttu að innhalda elgskjöt. Ástæðan er sú að það kom í ljós að svínakjöt var í réttunum.
IKEA segir að sala á réttunum hafi verið stöðvuð í lok mars og í gær hafi niðurstöður rannsókna fengist sem staðfestu þetta. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.
Talsmenn fyrirtækisins segja ennfremur að fólki stafi engin hætta af svínakjötinu. Það sé hins vegar óviðunandi að önnur hráefni en þau sem eigi að vera sé að finna í réttunum.
Innköllun IKEA er enn bætist í hóp hneykslismála sem hafa komið upp í Evrópu á undanförnum vikum og mánuðum, en flest þeirra hafa að vísu tengst hrosskjöti.
Hrossakjöt hefur fundist í kjötbollum frá IKEA og í kjölfarið ákvað fyrirtækið að innkalla sölu á kjötbollunum á veitingastöðum sínum og í matvöruverslunum.