Boða stóraukinn niðurskurð í Portúgal

Pedro Passos Coelho ávarpar þjóð sína í dag.
Pedro Passos Coelho ávarpar þjóð sína í dag. AFP

Portúgalski forsætisráðherrann, Pedro Passos Coelho, tilkynnti í dag um stóraukinn niðurskurð hins opinbera sem ráðast þurfi í á næstunni. Þetta gerist í framhaldi af niðurstöðu stjórnsýsludómstóls sem hafnaði fjölmörgum aðhaldsaðgerðum sem boðaðar höfðu verið í fjárlögum ársins.

Í þjóðarávarpi sagði Coelho að engar skattahækkanir yrðu á þessu ári en til aðgerða yrði gripið til að halda aftur af útgjöldum til heilbrigðis- og menntamála.

Á föstudag komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ákveðnar aðgerðir sem settar höfðu verið fram í fjárlagafrumvarpinu stæðust ekki lög, m.a. það að fella niður það sem kallað hefur verið laun fyrir fjórtánda mánuðinn hjá opinberum starfsmönnum og ellilífeyrisþegum. Þá hafnaði dómstóllinn skerðingu atvinnuleysisbóta og sjúkradagpeninga.

Stjórnvöld eru mjög ósátt með niðurstöðuna og segir að vegna hennar stækki fjárlagagatið um 1,2 milljarða evra. Sparnaðurinn hafi verið hluti af samkomulagi vegna neyðarláns Evrópusambandsins.

Coelho segir að staða Portúgals sé mun viðkvæmari nú en nokkru sinni áður. Erfitt verði að mæta kröfum ESB nú.

Hann segir ekki koma til greina að leita aftur á náðir Evrópusambandsins.

Fjárlagafrumvarpið var samþykkt á portúgalska þinginu í fyrra og í því var gert ráð fyrir 5,3 milljarða evra sparnaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert