Börn létust í árás NATO

Tólf óbreyttir borgarar, tíu börn og tvær konur, eru sagðir hafa látist í loftárás NATO í austurhluta Afganistans. Sex konur til viðbótar eru sagðar slasaðar eftir árásina, að því er fram kemur í frétt BBC.

Þorpsbúar segja við BBC að fólkið hafi verið inni í húsum sínum er árásin var gerð.

NATO staðfestir að árásin hafi átt sér stað en segist ekki hafa neinar upplýsingar um mannfall.

Stjórnvöld í héraðinu segja að átta talíbanskir skæruliðar hafi einnig látist í loftárásinni. Þeir segja að við árásina hafi hús í þremur þorpum hrunið.

Þau segja að árásin hafi verið gerð í samstarfi NATO og afganska hersins.

Árásin mun hafa staðið í margar klukkustundir og skothríð verið á báða bóga.

Svæðið sem ráðist var á er nálægt pakistönsku landamærunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert