Keyrði evruna í gegn „eins og einræðisherra“

Helmut Kohl. fyrrverandi kanslari Þýskalands.
Helmut Kohl. fyrrverandi kanslari Þýskalands. Wikipedia/KAS

Fyrrverandi kanslari Þýskalands, Helmut Kohl, kaus að vera áfram í embætti þrátt fyrir vaxandi óvinsældir fram að kosningaósigri sínum árið 1998 til þess að tryggja að Þjóðverjar yrðu aðilar að evrusvæðinu. Þá voru uppi efasemdir innan flokks hans, kristilegra demókrata, um fyrirhugaðan eftirmann hans, Wolfgang Schäuble, núverandi fjármálaráðherra Þýskalands, vegna þess að hann væri bundinn við hjólastól.

Þetta kemur fram í viðtali sem blaðamaðurinn Jens Peter Paul tók við Kohl árið 2002 í tengslum við ritun doktorsritgerðar en fjallað er meðal annars um málið á fréttavef írska dagblaðsins Irish Times í dag. Viðtalið hefur nú í fyrsta sinn verið birt opinberlega en Kohl var kanslari Þýskalands 1982-1998. Haft er eftir kanslaranum fyrrverandi að hann hafi þurft að keyra evruna í gegn „eins og einræðisherra“ og að hann hafi ekki lagt í að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í Þýskalandi um aðildina að evrusvæðinu vegna þess að hann hefði „auðvitað“ tapað henni.

Ennfremur segir Kohl að hann hafi orðið var við mikla andstöðu við evruna innan flokks síns, Kristilegra demókrata, en hann hafi lagt pólitísk líf sitt að veði vegna evrunnar. Hann hafi viljað koma henni á vegna þess að hún hafi snúist um framhald Evrópusamrunans sem ekki væri hægt að snúa til baka.

Þá er haft eftir honum að sá sem gegni kanslaraembætti Þýskalands hverju sinni þurfi að geta beitt valdi ef koma eigi málum í verk og sé hann skynsamur viti hann hvenær sé rétti tíminn til þess að keyra mál í gegn. „Í eitt skiptið var ég eins og einræðisherra og það var varðandi evruna.“

Hvað Schauble varðar segist Kohl alltaf hafa talað máli hans og vísað í Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta sem leitt hefði land sitt í gegnum síðari heimsstyrjöldina þrátt fyrir að vera í hjólastól. Flestir flokksmenn hafi hins vegar ekki séð fyrir sér að kanslari Þýskalands gæti verið í hjólastól.

Frétt Irish Times

Evrur
Evrur mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert