Fjármálaráðherra Kýpur, Haris Georgiades, ítrekaði á fundi fjárlaganefndar kýpverska þingsins í dag að ekki væri til umræðu að landið segði skilið við evrusvæðið. Ef það gerðist myndi Kýpur færast aftur um aldir.
„Það er kominn tími til þess að leiðrétta mistök fortíðarinnar. Það er kominn tími til þess að greiða reikninginn. Við getum aðeins eytt því sem við höfum í vösunum. Það er engin önnur leið,“ sagði Georgiades ennfremur á fundi nefndarinnar samkvæmt frétt AFP en rannsókn fer nú fram á vegum hennar á aðdraganda efnahagserfiðleika Kýpur.
„Þetta er spurning um raunsæi. Fyrirmæli stjórnvalda til ráðuneyta verða þau að setja saman fjárlög næsta árs í meginatriðum frá grunni. Hverju atriði, hverju verkefni ráðuneytanna verður að fylgja útskýring og réttlæting,“ sagði hann ennfremur.