Alls hafa sex milljónir starfa verið lagðar niður í þeim 27 ríkjum Evrópusambandsins frá því efnahagskreppan reið yfir álfuna árið 2008, samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóða vinnumálastofnunarinnar, ILO.
Í skýrslunni kemur fram að á aðeins hálfu ári hafi glatast ein milljón starfa. Í löndum eins og Kýpur, Grikklandi, Portúgal og Spáni hefur atvinnuleysið aukist jafnt og þétt. Í febrúar voru 26,3 milljónir íbúa á svæðinu án atvinnu sem er 10,2 milljónum fleiri en árið 2008. Atvinnuleysi mælist 10,9% að meðaltali í ríkjum ESB og á evru-svæðinu er það 12%.